143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Nú vitum við að verið er að horfa til verðlagsvísitölunnar, að hafa áhrif á hana, en fólk finnur kannski mismunandi fyrir henni í sjálfu sér. Það fólk sem er mjög skuldugt verður vart við lækkanir á höfuðstól á sínum lánum en margir eru þar staddir að hafa fyrst og fremst lágmarkslaun til framfærslu og munar mjög mikið um hækkanir á gjaldskrá eins og komið hefur fram varðandi sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun og ýmsar hækkanir sem hafa komið í kjölfar breytinga á reglugerð eins og þingmaðurinn fór vel yfir hér áðan. Er þá eitthvað sem væri frekar hægt að nýta þetta fjármagn í, og þingmaðurinn kom inn á það, og þá betur gagnvart einmitt þeim hópi sem einhvern veginn verður alltaf eftir þó að einhverjar málamyndalækkanir verði þarna, 1% smurt yfir ýmsa þætti sem ríkið hefur með að gera.

Aðeins varðandi Vegagerðina: Nú kom fram í umræðu hér áðan að verið er að skerða þetta sérstaka bensíngjald sem hefur áhrif á tekjustofna Vegagerðarinnar miklu meira en almenna gjaldið sem er lækkað um 20 aura, en sérstaka gjaldið er lækkað um 45 aura — ríkissjóður ber sem sagt minni skaða af en Vegagerðin er látin bera þetta af miklu meiri þunga. Ég spyr hvort það komi ekki fram í vegaframkvæmdum á næstu árum ef þetta á að ganga eftir.