143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hennar. Hún fór yfir þetta mál frá ýmsum sjónarmiðum, kannski sérstaklega út frá sjónarmiðum velferðar og þá annars vegar hvað varðar lækkun á áfengisgjaldi sem hér er boðuð og hins vegar þær hækkanir á komugjöldum sem urðu á heilsugæslunni.

Það er rétt að þeir liðir sem hér eru undir, eldsneyti og áfengi og tóbak, og þá sérstaklega áfengi, eru liðir sem vissulega varða mjög mörg heimili í landinu þar sem þetta eru algengar neysluvörur. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann almennt um þá forgangsröðun sem birtist hér, að aðgengi að áfengi er talinn einn mikilvægasti þátturinn í því hvernig við skilgreinum áfengisvarnastefnu ef við getum sagt sem svo. Er ég þá að vitna til áfengisbölsins, svo að maður segi það bara upp á gamla mátann. Gerðar hafa verið margar rannsóknir sem sýna að aðgengi að áfengi er líklega áhrifamesti þátturinn í því að takmarka neyslu áfengis. Það er ástæðan fyrir því til að mynda að ég hef verið fylgjandi því að ríkið haldi áfram að hafa einkasölu á áfengi, að það sé ekki aðgengilegt alls staðar, í öllum matvöruverslunum. Það hafa líka verið ein rökin fyrir því að hafa verð á áfengi ekkert sérstaklega lágt, þ.e. til að takmarka aðgengi að því.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir sjónarmiðum hennar um þessi mál og hvort hún telji þar af leiðandi það eðlilega forgangsröðun, á meðan við höfum verið að skerða heilbrigðiskerfið, eins og hún fór nokkuð ítarlega yfir í ræðu sinni, að lækka þessi gjöld sem vissulega er til hagsbóta kannski til skemmri tíma fyrir heimilin í landinu en hefur þessi aukaáhrif alla vega að mati einhverra. Hvert er mat hennar á því?