143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni, ég held að það sé forgangsverkefni að gera áætlanir um aukningu á fjárframlögum í heilbrigðiskerfinu og líka í menntakerfinu sem við erum minna að ræða hér, en greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur aukist til muna, sem er alvarlegt vandamál. Við eigum mjög bágbornar tölur um þá greiðsluþátttöku, auðvitað eru til einhver gögn en við höfum ekki nógu góðar upplýsingar um þetta. Hv. þm. Árni Páll Árnason fór yfir það í ræðu sinni að talið sé að aukning í greiðsluþátttöku sjúklinga hafi verið vanmetin.

Ég veit að nú stendur yfir vinna hjá hæstv. heilbrigðisráðherra um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu en verkefni okkar hér, í samtali við ýmsa hópa samfélagsins, að setja okkur markmið um hver greiðsluþátttakan eigi að vera hlutfallslega. Það væri óskandi að hún væri núll. En hvað er ásættanlegt, hver viljum við sem samfélag að greiðsluþátttakan sé? Hvað er ásættanlegt í þeim efnum? Við eigum síðan að setja okkur markmið um að komast þangað og það mundu vera góð og skýr skilaboð frá ríkisstjórninni inn í þá vinnu, um að við náum hér sátt um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu, að auka framlög inn í heilbrigðiskerfið með þessari aðgerð í stað þess að setja það í áfengi og tóbak. (Gripið fram í: Þetta er alveg fáránlegt.)