143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það væri mun skilvirkara að setja þessa fjármuni inn í heilbrigðiskerfið. Hvar ætti nákvæmlega að forgangsraða annars staðar en þar skal ég ekki fullyrða um. Ég gaf hér dæmi af 340 milljónum sem kostaði að hætta við hækkun á komugjöldum með heilsugæslu og hækkun á greiðsluþátttöku sjúklinga varðandi hjálpartæki og þjálfun.

Síðan getur verið pólitískt stefnumál að lækka gjöld á bensíni, en það er fákeppnismarkaður á Íslandi. Áfengis- og tóbaksgjald er auðveldara að tryggja að skili sér því að þar er ríkið með forræði á verðlagningu og getur þá sjálfu sér um kennt ef það skilar sér ekki, en olíufélögin eru ekki þekkt fyrir að vera félög sem neytendur geta helst reitt sig á að taki þátt í því að vera samfélagslega ábyrg þegar kemur að verðbólgu.

Forgangsröðin hefur náttúrlega verið svo skýr hjá núverandi ríkisstjórn að ég held að fólk sé enn að undra sig á hvað grímuleysið er fullkomið. Hér voru lækkuð veiðigjöld. Það er jafnvel gengið svo langt að línubátar fá rækjukvóta. Hér var lækkaður virðisaukaskattur á gistiþjónustu sem hefði aðallega lagst á erlenda ferðamenn en í staðinn fáum við kerfi þar sem einkaaðilar eru farnir að rukka inn á svæði þar sem verðmætar íslenskar náttúruperlur eru. Svo var skorið niður í þróunaraðstoð.

Það er auðvitað erfitt að taka lítið frumvarp eins og þetta og gera að gríðarlegu ásteytingarefni en það er bara enn ein birtingarmynd þess að hér snýr forgangsröðunin (Forseti hringir.) frá félagslegu réttlæti yfir í það að skara eld að köku (Forseti hringir.) vildarvina.