143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað má segja að þetta sé ekki mjög stórt mál, ráðstöfun á tæpum 0,5 milljörðum kr., í hinu stóra samhengi ríkisfjármálanna upp á 600 milljarða. Þetta er engu að síður visst prinsippmál og mér finnst bara fínt að menn noti tækifærið og ræði það örlítið. Það væri nú gaman ef hv. stjórnarliðar kæmu aðeins með í þá umræðu því að auðvitað er þetta ákveðið prinsippmál í leiðinni

Hér hefur verið tæpt á ýmsu undir umræðunni sem akkúrat hefur mikið vægi og skiptir máli. Í hvaða mæli erum við að fjármagna útgjöldin, t.d. heilbrigðiskerfið, með almennum skattstofnum sem lúta þá þeim lögmálum að vera beinir skattar sem taka mið af tekjum fólks, jafna þar með í raun líka lífskjörin, eða í formi neysluskatta, gjalda af þessu tagi, eða í raun og veru nefskatta? Menn verða að horfast í augu við það að komugjald á heilsugæslustöð er ekkert annað en nefskattur því að það er ekkert spurt um efnahag og afkomu þar. Þetta er ekki bara spurning um kostnaðarhlutfallið sem menn borga að lokum fyrir þá þjónustu heldur líka hvernig byrðunum af þeim kostnaði er dreift. Eru það nefskattar eða föst gjöld óháð efnahag viðkomandi? Eru einhver þök, eins og í lyfjaendurgreiðslukerfinu, sem jafna auðvitað upp að vissu marki byrðarnar?

Mér finnst engin hugsun vera í þessu frumvarpi. Það er eins og menn hafi bara ákveðið að baka sér algerlega lágmarksóþægindi og vinnu við það að smyrja þessu þunnt út á tiltekna tekjustofna hafandi ekki fyrir því að hugsa neina hugsun í því hvernig mætti breyta þessu. Því miður gaf hæstv. fjármálaráðherra engin sérstök færi á því að þetta mætti endurskoða í meðförum þingsins (Forseti hringir.) en ég held að menn eigi ekki að gefast upp við það heldur væri fróðlegt (Forseti hringir.) að koma með tillögur um breytingar á (Forseti hringir.) þessu.