143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er verið að leggja fram frumvarp um lækkun á gjöldum, m.a. á áfengi, tóbaki og bensíni, vegna þess að það tengist kjarasamningum. Þetta á að vera yfirlýsing frá hæstv. ríkisstjórn og nú ætlar hún að gera betur, ekki lækka niður í 2,5%, heldur niður í 2% og allt í lagi með það. En þegar gjaldskrá er skoðuð nánar, eins og t.d. gjaldskrá varðandi hjálpartækin, þá virðist vera að með þeirri gjaldskrárhækkun sé verið að taka til baka megnið af þeirri kjarabót sem flestir lífeyrisþegar fengu um áramót. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað henni finnst um þá forgangsröðun og hvort hún telji ekki að í nefndinni þurfi að skoða kjör fleiri hópa sem hafa þurft að þola gjaldhækkanir að undanförnu.