143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:51]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Frumvarpið er auðvitað lagt fram til að greiða fyrir kjarasamningum, eins og sagt var og kemur fram í greinargerðinni. Þar eru ákveðin neikvæð formerki; „þrátt fyrir að“ ekki hafi endilega allt gengið eftir varðandi vinnumarkaðinn sem ríkisstjórnin vonaðist til. Svo er fólk líka gert ábyrgt fyrir því ef neyslan verður meiri, sem tilgangurinn var, að verðbólga og annað hækki í framhaldinu. Auðvitað veit maður að þetta er lagt fram hér af því að það telur inn í vísitöluna og hefur áhrif þar, ég held að það sé alveg ljóst. Það er ekki hægt að gagnrýna það sem slíkt, en það breytir því ekki að áhyggjurnar eru til staðar af því að sumar af lækkunum skili sér ekki til neytandans. Má þar nefna olíugjald og bensíngjald sem liggur við að hækki ef andinn blæs þannig í útlandinu, eins og sagt er, en svo virðist aldrei vera tækifæri til lækkunar, ef það er gert er það af því að þá eru til svo miklar birgðir í landinu.

Ég sé þetta því ekki gerast á þann hátt sem ég held að ríkisstjórnin vonist eftir og af því hef ég áhyggjur, að þessi auratalning skili sér ekki til neytendanna. Að sjálfsögðu eigum við að hafa áhyggjur af því, þó að hún telji inn í vísitöluna þá skilar hún sér kannski síður til neytendanna.

Eins og kom fram fyrr í dag veikir þetta tekjustofn Vegagerðarinnar og hefur áhrif á viðhald og annað slíkt sem vissulega er neytendamál, (Forseti hringir.) að við getum ekið um örugga vegi (Forseti hringir.) og haft góðar samgöngur. Þetta kemur einnig inn á það.