143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[17:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl, eins og það heitir. Segja má að þar birtist ítrekað forgangsröðun ríkisstjórnarinnar varðandi skattlagningu, hvar breiðu bökin eru, hverja þurfi að leggja meira á og hverjum beri að hlífa.

Það kom einhvern tíma upp úr hæstv. fjármálaráðherra að nóg hefði verið gert fyrir þá lægst launuðu. Hann sagði að fyrri ríkisstjórn hefði séð fyrir þeim og ekki þyrfti að hugsa um þá lengur. Þetta er ekki orðrétt haft eftir honum en efnislega. Orð hans endurspeglast vel í frumvarpinu. Menn hafi velt því fyrir sér fyrr í umræðunni hvort valin hafi verið þægilegasta leiðin. Ég held að menn hafi bókstaflega valið að forgangsraða og hafi vísvitandi farið í að lækka fyrst og fremst áfengi og tóbak og síðan bensín umfram annað sem mögulegt var.

Í rauninni var enginn ágreiningur þegar menn fóru í kjarasamningana og reyndu að ná samningum á vinnumarkaði og nálguðust verkefnið út frá því að reyna að halda niðri verðbólgu, reyna að auka kaupmátt en halda engu að síður hallalausum fjárlögum. Þetta var göfugt markmið og var stutt af öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi. Það sem ágreiningurinn er um er hvert sækja eigi gjöldin til að ná endum saman og hverjir eigi að bera helstu byrðarnar.

Ég get eiginlega svarað því strax með því að vitna í ekki ómerkari samtök en Samtök atvinnulífsins sem gáfu út hefti 8. janúar 2014 sem heitir Áhrif aðgerða í opinberum fjármálum og verðlag, ráðstöfunartekjur heimilanna og afkoma atvinnulífsins á árinu 2014. Á bls. 4 er tafla 2 sem heitir Samantekt: Áhrif opinberra aðgerða á vísitölu neysluverðs. Þar kemur fram að vísitöluáhrifin af hækkun áfengisgjalds, sem var 3% í fjárlögunum en er hér lækkað niður í 2%, séu 0,024%, þ.e. 1/4 af einu prósenti.

Tóbakið er enn þá minna, vísitöluáhrifin eru 0,016% miðað við 3% hækkunina. Að vísu er í frumvarpinu sem hér liggur fyrir metið að hvað varðar það gjald ásamt öðrum gjöldum sem verið er að lækka í sambandi við orkugjöldin séu áhrifin á vísitöluna 0,08%, það er allt og sumt.

Í þessu hefti og töflunni sem ég nefndi er háskólahækkunin. Hún veldur vísitöluhækkun, þ.e. á neysluvísitölu, um 0,11%. Hún ein og sér, ef 15 þús. kr. hækkunin á innritunargjöldum í háskólana er tekin út, hefði skilað meiri árangri við að halda niðri neysluvísitölu en það sem verið er að gera hér. Þurfum við nokkuð að ræða forganginn betur? Af hverju gerði ríkisstjórnin þetta ekki þannig? Það kemur sér vel fyrir mig, þið getið rétt ímyndað ykkur það. Ég keyri 20 þúsund kílómetra á ári. Ef ég keyri það og eyði 2.000 lítrum af bensíni mun þessi aðgerð sem hér er skila mér 2.300 kr. á ári. Það mun gera gæfumuninn fyrir mig, það mun algjörlega gjörbreyta afkomu minni, eða hvað?

Hefði ekki verið betra að lækka komugjöldin á heilsugæsluna eða lækka innritunargjöldin í háskólana og láta þá njóta sem helst þurfa á því að halda? Að halda því fram að þetta sé það sem skiptir almenn heimili í landinu mestu máli er auðvitað aðeins sýndarmennska, hvað þá ef menn taka áfengis- og tóbaksgjöldin, það hefur komið mjög vel fram í umræðunni og er eitthvað sem við eigum að fjalla um. Við höfum rætt áfengisstefnu, við erum komin með tillögur í þingið, sem endilega þurfa að komast í umræðu, um það hvernig við tökum á vanda þeirra sem eiga við áfengis- og fíkniefnavanda að stríða, hvernig getum við fjallað um sjúkdóm þessa hóps eða einstaklinga og brugðist við með viðunandi hætti.

Eitt af því sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir og þeir aðilar sem berjast fyrir heilbrigði fólks í heiminum er að stærstu áhættuþættirnir séu áfengi og tóbak og svo lífstílssjúkdómar. Hvað er ráðlagt? Að reyna að takmarka aðgengið og hækka verð.

Hvers konar stefna er þetta þá hjá ríkisstjórninni sem hefur forvarnir sem forgangsmál í stefnu sinni, sem talar fyrir því að berjast eigi fyrir forvörnum sem minnki útgjöld í heilbrigðiskerfinu? Hvað birtist okkur hér? Ekki færa þau rök fyrir að þetta hafi þurft að gera til þess að ná niður neysluvísitölunni, ég er búinn að benda á það hafi verið hægt að gera með því að taka út hækkunina á innritunargjöldum í háskóla.

Þegar fjárlögin voru samþykkt ræddum við mjög ítarlega þá forgangsröðun sem birtist þar og í fjárlagafrumvarpinu og var margt sem kom mér mjög á óvart. Ég hef margítrekað að við vorum í blóðugum niðurskurði á síðasta kjörtímabili, við skulum ekkert vera að fela það, við tókum víða á. Við fórum bæði í niðurskurð og hækkuðum skatta en náðum líka verulegum árangri í að bjarga ríkisfjármálunum og nú uppsker ný ríkisstjórn.

Nú koma menn með þær hugmyndir í kjarasamningunum að reyna að ná hóflegum kjarasamningum til að halda niðri verðbólgu. Hverjir eiga svo mesta útspilið og fyrsta útspilið til þess að reyna að ná þeim áfanga? Það er Reykjavíkurborg sem tekur frumkvæðið og segir: Við drögum til baka öll áform okkar um gjaldskrárhækkanir og gefum með því þau skilaboð að menn þurfi ekki að hækka launin til að bæta hækkanir.

Í framhaldi komu fleiri sveitarfélög. Á þeim tíma svaraði hæstv. fjármálaráðherra svo: Við munum lækka einhver gjöld. Það er mjög athyglisvert að skoða það, það er til í blaðaviðtali: Við munum lækka einhver gjöld. Það eru gjöldin sem birtast í frumvarpinu hér, það er áfengi og tóbak og bensíngjald. Á sama tíma er ekkert horft á þau gjöld sem höfðu hækkað langt umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir, talað um 3% hækkun almennt í fjárlögum, 3–3,6%, það er örlítið mismunandi. Það er alveg rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði að það er misjafnt, það er ekki alls staðar verið að hækka, sums staðar hækkar líka miklu meira og hefur verið bent á komugjöld og ýmislegt annað í heilbrigðiskerfinu.

Af hverju var ekkert litið á þá þætti sem hefðu gagnast því fólki sem hefur búið við þrengri kost á undanförnum árum? Hverjum hefði dottið í hug, þegar við hættum niðurskurðinum í heilbrigðismálum fyrir árið 2013 og viðurkenndum að of langt hefði verið gengið kæmi frekari niðurskurður með nýrri ríkisstjórn, að bara hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu er niðurskurður 135 milljónir? Gert hefur verið ágætlega grein fyrir, og ég ætla að koma betur inn á það á eftir, niðurskurði sem tengist alls kyns gjöldum á sjúklinga.

Þetta gerist á sama tíma og ríkið afsalar sér viðbótartekjum. Að vísu kemur það ekki til framkvæmda, eins og auðlegðarskatturinn, fyrr en 2015, en búið er að taka ákvörðun um það. Hækkuð eru frítekjumörk í vaxtatekjum og þannig er þeim hjálpað sem þó fá vexti, farið úr 100 upp í 125 þúsund. Álögur á sérstaka veiðigjaldinu eru lækkaðar og síðan afsala menn sér hækkun og verið er að hverfa til fyrra horfs á ferðamannaskattinum þ.e. gistináttaskattinum, en svo er komið með tillögu í fjárlagafrumvarpinu um að rukka sjúklinga um legugjald á spítölum. Sem betur fer var ríkisstjórnin rekin til baka með það og var hætt við það.

Ríkisstjórnin státar sig af því að hafa lækkað miðþrepið í tekjuskatti um 0,8%. Mörkin þar eru þó þannig að þeir sem fá undir 250 þúsund í laun fá ekki neitt og svo ég vísi í það sem ég sagði áðan um orð hæstv. fjármálaráðherra, að fyrri ríkisstjórn hefði gert svo vel við þann hóp, þá er hólið gott en engu að síður er það fjarri raunveruleikanum að lægst launaða fólkið á Íslandi, fólkið sem margt hvert býr enn þá við fátækt, hafi fengið nóg af tekjum og þarfnist ekki frekari aðgerða. Það er einfaldlega ranghermi.

Þá fara menn yfir í nefskatta. Það er allt saman hækkað um 3% og jafnvel miklu meira, eins og innritunargjöldin, og útvarpsgjaldið er hækkað um 3% jafnvel þótt ekki eigi að nota það í Ríkisútvarpið. Ég var búinn að nefna sjúklingagjöldin, við erum að tala um árlegt gjald sem fylgir alltaf til Framkvæmdasjóðs aldraðra, allt er þetta hækkað um 3% og launahækkun upp á 2,8% á að borga það. Það er sá forgangur sem við erum að ræða um. Við erum ekki að tala um markmiðin, við erum ekki tala um það heildarmarkmið að ná jöfnuði, við erum ekki að tala um að grípa hafi þurft inn í samninga, við erum sammála um það, það er hvernig þetta er gert sem er gagnrýnivert.

Það er fróðlegt að skoða frumvarpið sem lagt var fram með fjárlögunum, þskj. 3, og skoða svo hverju hefur verið breytt, og það er aðeins lítill hluti. Til dæmis er þar inni tekjuaukning undir tekjuhlutanum, það er stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki þar sem fyrri ríkisstjórn endurgreiddi 20% af þróunar- og tæknikostnaði eða hönnunarkostnaði en það er lækkað niður í 15%. Er það það sem við þurftum helst á að halda núna þegar við erum að reyna að byggja upp atvinnulífið og iðnaðinn sem verður að bera uppi hækkunina? Þarna kemur Ríkisútvarpið, þarna koma opinberu háskólarnir, svo ég endurtaki það sem sagt var.

Einnig er fróðlegt að skoða það sem kemur skýrt fram í svari hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu þar sem menn beittu ákveðinni snilld. Hér í þinginu var ákveðið að lækka virðisaukaskattinn á bleium úr 25,5 % niður í 7%. Nú veit ég ekki alveg hvort þetta er komið til framkvæmda, en það kemur mjög skýrt fram að menn sjá sér leik á borði og taka fullorðinsbleiurnar og láta einstaklingana borga meira af því að bleiurnar munu hvort sem er lækka. Í fyrsta lagi er ekki búið að taka ákvörðun um að lækka fullorðinsbleiurnar, í öðru lagi er þetta dæmigert: Jú, við skulum lækka þetta en við ætlum að ná því af ykkur aftur. Af hverjum? Þeim sem þurfa að vera með bleiur á fullorðinsárum einhverra hluta vegna, vegna sjúkdóms eða elli.

Þetta finnst mér óþolandi í svona kerfi. Mér hefur ekki unnist tími til að fara yfir þau öryggisnet sem við setjum í kerfið og er full ástæða til að spyrja: Voru þau hækkuð og voru þau þá hækkuð um 3% eða voru þau hækkuð meira? Til dæmis í lyfjafrumvarpinu — sem var auðvitað erfið ákvörðun og hefur réttilega verið bent á hér að það hefði þurft að laga m.a. með tilliti til sykursjúkra og ég hélt að það ætti að gera það, ég bar ábyrgð á því að koma því frumvarpi í gegn og tók við skömmum fyrir það — voru sett krónutöluviðmið um það sem fólk ætti að borga. Var þeim breytt eða var þeim ekki breytt? Hversu mikið? Við þurfum að fylgjast með öllum þeim hlutum vegna þess að það er enginn vandi að taka viðmiðin og færa þau ofar og vinna þannig pening til baka.

Við vissum að við gengum of langt varðandi tæknifrjóvgun. Við borguðum ekki til baka ferðakostnað eins og við hefðum þurft að gera á þessum tíma eftir hrun. Þá er ég að tala um ferðakostnað sjúklinga sem þurftu að fara langan veg og þurftu vegna breytinga í heilbrigðiskerfinu að sækja þjónustu landsenda á milli. Hafa menn mætt því? Hafa menn lagt áherslu á að koma til baka þarna? Mér sýnist ekki. Hvað með endurgreiðslu á heyrnartækjum, sem er allt of lág á Íslandi? Ég get haldið áfram að telja upp fullt af hlutum.

Síðan koma nýir samningar, bæði við sjúkraþjálfara og við sérgreinalækna. Það er gerður samningur við sérgreinalækna þar sem í raunveruleikanum er fært inn í gjaldskrá 20% hækkun, sem er sjálftaka þeirra sjálfra vegna þess að þeir eru utan samninga. Þeir ákváðu að leggja ofan á komugjöld, en ég tek fram að það var mismikið eftir læknum. Sumir lögðu nánast ekkert á og jafnvel ekki neitt. En sjúklingar voru rukkaðir beint. Það var mikilvægt að ná samningum við sérgreinalæknana en þetta er nánast tekið inn beint og lagt ofan á þannig að sjúklingarnir borga hækkunina sjálfir. Við erum að tala um næstum 20% hækkun á greiðslu fyrir komu til sérgreinalæknis. Það er að vísu misjafnt, 10–20% eftir aldri og öðru slíku. Þannig leystu menn líka samninginn við sjúkraþjálfarana, þegar menn voru komnir í ógöngur þar leystu þeir það með samningi sem þýðir að greiðsluþátttakan eykst.

Þetta kemur mjög vel fram í svari við spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég treysti á að nefndin fari yfir þetta og hafi kjark til að breyta þessari forgangsröðun. Annars gef ég ekkert fyrir loforð og stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að forvarnir eigi að hafa forgang, það eigi að reyna að efla heilbrigðiskerfið og bæta stöðu þeirra sem lakari kjörin hafa o.s.frv., eins og menn hafa verið tala um í hátíðarræðum. Þarna er verið að vinna þvert gegn því.