143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sammála honum um að þetta er heldur undarleg forgangsröðun, að hækka það sem maður hefði haldið að ætti að lækka og lækka það sem maður hefði haldið að ætti að hækka. Ég tók eftir því að hv. þingmaður nefndi eitt sem við gætum kannski verið ósammála um, kannski við sjáum til hvernig það fer í umræðunni, en það varðar sérstaklega áfengis- og tóbaksgjald.

Tóbaksgjald er kannski minna umræðuefni vegna þess að fólk býr ekki til tóbak heima hjá hér, a.m.k. með góðu móti og ekki í teljandi mæli. Það býr hins vegar til áfengi heima hjá sér, og frekar auðveldlega í þokkabót. Landaframleiðsla á sér stað úti um allt land og þó, að því er manni skilst, í minna mæli en áður þegar aðgengið var verra. Núna eru vínbúðir opnar lengi og þær eru víða þótt verðið hafi að vísu hækkað.

Ég hef svolítið velt þessu fyrir mér hvað varðar áfengisgjaldið, ég skil alveg þau rök. Hv. þingmaður vitnaði í rannsóknir sem ég hefði gaman af að heyra meira um sem varða það hvað virkar best til að draga úr misnotkun á áfengi og nefndi þar sérstaklega takmarkað aðgengi og hátt verð. Það er alveg trúverðugt, það skapar skyn, þ.e. meikar sens, eftir því hvaða tungumál maður vill nota. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður gefi eitthvað fyrir þau rök að hækkandi áfengisverði fylgi einhver mörk þar sem verðhækkunin leiðir af sér meira heimabrugg, meiri framleiðslu í heimahúsum til að hafa upp í þá neyslu, og sérstaklega í því sambandi hvernig hægt sé að mæla þetta. Það er ekki hægt að mæla heimabrugg með kaupum eða framleiðslu, það þarf að mæla það einhvern veginn öðruvísi.

Ég velti fyrir mér viðhorfi hv. þingmanns gagnvart þessu atriði.