143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, þetta er mjög áhugaverð umræða og fróðleg og mikið gaman að velta vöngum yfir þessu.

Ég vitna í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO, og er sjálfsagt að senda hana, hún er upp á 161 bls. og er tveggja eða þriggja ára gömul. Þar er fjallað um þessi mál. En þetta hefur staðið efst á blaði hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í nokkuð mörg ár, þ.e. neysla og lífsstílssjúkdómar, neysla áfengis og tóbaks. Náðst hefur gríðarlegur árangur varðandi tóbak í heiminum þó að þar hafi söluaðilar reyndar fært sig til og reynt að finna nýja markaði og haldi uppi stöðugum áróðri til að tryggja sína sölu.

Hið sama gildir um áfengi, það er spennandi að vita um það, ég held til dæmis að verð á áfengi hafi veruleg áhrif á neyslu ungs fólks. Þar skipta peningar miklu máli, þau forgangsraða eftir því. Það getur líka haft áhrif á það hvort þau velja önnur efni sem eru hlutfallslega ódýrari og ef þau geta hugsanlega ræktað þau sjálf o.s.frv. Þetta er því alltaf eitthvað sem þarf að fínstilla.

Mér hefur alltaf fundist fróðlegt að heyra menn lýsa Íslendingum, hvernig þeir drekka. Ég var sjálfur í námi í Danmörku þar sem neyslan var tvö- eða þrefalt meiri í lítrum talið miðað við 100% alkóhól. Í fyrsta lagi voru viðmiðin um það hverjir teldust áfengissjúklingar allt önnur en hér. Í öðru lagi fullyrði ég, miðað við þá reynslu, að Danir hafi drukkið jafn illa jafn oft og við en að auki daglega.

Þegar við erum til dæmis að tala um árangurinn af innleiðingu bjórsins og tölum um að hann hafi breytt kúltúrnum á Íslandi, þá er alveg klárt að hann hefur að miklu leyti breytt því hvort fólk fer út og hefur það huggulegt, borðar úti og er á kvöldin þar sem er tónlist o.s.frv. En hefur ofbeldi minnkað? Svo kemur alltaf stóra spurningin: Hvað hefði gerst ef hann hefði ekki komið? Þetta eru skemmtilegu spurningarnar í þessum vangaveltum og það sem er erfitt við alla svona umræðu er að annars vegar er söluaðilinn (Forseti hringir.) svo stór áhrifavaldur en hins vegar er það heilbrigðiskerfið, (Forseti hringir.) hagsmunirnir fara ekki saman og menn reyna að hafa áhrif hver á annan.