143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ræddi aðeins áðan, og það hefur komið fram fyrr í umræðunni, hver ástæðan væri fyrir þessum breytingum núna og hvernig farið er í þær. Ég segi: Það er forgangsröðun. Þetta er meðvituð ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Aðrir hafa haldið því fram að hugsanlega væri þetta þægindasjónarmið, þetta væri gert vegna þess að þeir nenntu ekki að breyta neinu öðru, það væri þægilegast að gera þetta þarna.

Ég held því miður að þetta sé ekki svona einfalt. Það eina sem mér hefur dottið í hug að gæti verið ástæðan fyrir því að fara í þetta er meðal annars það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á, að einhver feluleikur sé í gangi varðandi það hver borgar. Það sé tekið af Vegagerðinni, það sé tekið af stóriðjunni og menn séu í raunveruleikanum að gera þetta eitthvað mildara í fjárlögunum með einhverjum millifærslum.

Ég tek almennt undir það með hv. þingmanni að það er enginn vandi þegar maður er að fara inn með breytingar á tekjum að breyta útgjaldaliðum samhliða. Það hefði ekki verið neinn vandi að ákveða að innritunargjöld í háskólum mundu ekki koma til framkvæmda í haust, það er ekkert sem veldur vandræðum í því. Það sama á við um gjaldskrárhækkunina hjá heilsugæslunni, að hún yrði dregin til baka, það eru heldur engin vandkvæði í því. Tekjur verða lægri en að tala um það, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur gert, eins og þá sé verið að taka af heilsugæslunni 90 milljónir — ef menn ætla að hafa þær til í kerfinu, 460 milljónir, er enginn vandi að færa það yfir til heilsugæslunnar þannig að það lendi annars staðar en þar, sá sparnaður sem þar kemur til.

Ég gef því ekkert fyrir þau rök að nauðsynlegt sé að gera þetta þarna. Þetta er í hrópandi ósamræmi við yfirlýsingar og góð fyrirheit um forvarnir, umhverfismál. Við ætlum að vera í fremstu röð í umhverfismálum en samt erum við að lækka gjöld akkúrat þar á sama tíma og eldsneytiskostnaðurinn lækkar (Forseti hringir.) vegna gengisbreytinga.