143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú má búast við að menn fari að endurskoða fjárlögin fljótlega vegna þess að margt virðist vera farið að ganga betur í framhaldi af því sem var hafið hér í lok síðasta kjörtímabils, nú eru tekjustofnar að skila sér betur o.s.frv. Menn ættu því ekki að vera í gríðarlega miklum vandræðum, vonandi ekki. En þá reynir mjög á það hvernig menn skipta þeim viðbótartekjum, hvað fer í niðurgreiðslu á skuldum, hvað fer í að bæta upp ákveðin útgjöld. Við megum búast við að menn þurfi að borga inn í framhaldsskólann á næstu vikum, kjarasamningur mun kosta eitthvað og gera þarf betur við framhaldsskólann til að menn nái vopnum sínum þar.

Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það væri bragur á því ef Alþingi tæki sig til og breytti þessu, ef nefndin breytti þessu. Af hverju ekki? Við erum ekki að deila um markmiðin, við erum ekki að tala um að svíkja það loforð í kjarasamningum að ná þessum markmiðum, við erum ekki að tala um að auka hallann á fjárlögum. Við erum hreinlega að segja: Þið eruð að gera óþarfan og rangan hlut, við höfum betri tillögur handa ykkur. Þetta var gert og bjargaði mörgu í fjárlögunum á sínum tíma þegar menn drógu til baka sjúklingaskatta og ýmislegt annað tókst að hrekja til baka, ég held að það væri bragur á því. Ég heyri það á stjórnarþingmönnum að þeir hafa ekkert setið yfir þessu og pælt í þessu sem hinni einu lausn. Þeir hafa í raun sammælst um meginmarkmiðin.

Ég held því að það væri mjög gott að láta reyna á það að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki sig til og færi þetta til og sýni þannig svolítinn mannsbrag og geri það í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Skili þannig að fullu þeim loforðum sem þeir hafa gefið hvað varðar heildartöluna, nái sömu markmiðum varðandi neysluvísitöluna en færi það til þeirra sem þurfa meira á því að halda en þeir sem keyra mest á bíl eða drekka mest af áfengi eða reykja mest.