143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það sem við erum kannski að velta fyrir okkur hérna, við sem höfum tekið þátt í umræðunni, er hvort ekki hefði verið hægt að nýta þessa fjármuni betur fyrir þá hópa í þjóðfélaginu sem þurfa virkilega á því að halda. Þótt þetta séu kannski ekki miklir fjármunir í útgjöldum ríkisins sem þarna er um að ræða getur það skipt máli líka fyrir marga einstaklinga sem búa við erfið kjör hvernig við greiðum til dæmis ýmsa þjónustu í heilbrigðiskerfinu og eins og hefur verið komið inn á varðandi sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og hjálpartæki. Gæti hv. þingmaður hugsað sér að stokka þetta alfarið upp, taka það til endurskoðunar að taka þarna einhverja þætti út og forgangsraða í þágu þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu? Telur hv. þingmaður að það færi til dæmis gegn vilja verkalýðshreyfingarinnar ef við mundum hugsa þetta þannig að við mundum nýta lækkun á áfengisgjaldi, bensíngjaldi og lækkun raforkuskatta á stóriðju, þessa upphæð, sem er kannski ekki gífurlega há í stóra samhenginu, betur fyrir þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu? Telur hv. þingmaður að það væri hægt? Mundi verkalýðshreyfingin leggjast gegn því?