143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú eru auðvitað tveir aðilar sem semja, það er ekki bara verkalýðshreyfingin heldur eru það samtök atvinnurekenda. Ég er að velta fyrir mér hvort þeir hafi sett sitt mark á þessa kröfu með því að taka þarna inn ýmsa þætti sem snúa kannski ekki alveg beint að kjörum þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu varðandi raforkuskatt á stóriðju og kolefnisgjald og kílómetragjald og bensíngjald og annað því um líkt. Ætli þetta hafi verið þannig samhangandi að það sé enginn möguleiki til að brjóta þetta eitthvað upp í þágu þeirra sem hafa minna?

Hv. þingmaður kom inn á aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu þeirra lægst launuðu. Það gekk ekki eftir sem verkalýðshreyfingin gerði kröfu um, að komið yrði til móts við þá lægst launuðu með hækkun á persónuafslætti. Í stað þess voru skattar lækkaðir á þá sem hafa hærri tekjur. Telur hv. þingmaður að þegar upp er staðið sitji alltaf þessir sömu hópar eftir í botninum? Þá er ég að tala um hópana sem seðlabankastjóri nefndi, þ.e. að ef laun þeirra hópa hækkuðu færi óðaverðbólga af stað og annað því um líkt.

Er það bara ekki óvinnandi verk að mæta kjörum (Forseti hringir.) þeirra lægst launuðu? Það eru alltaf einhverjir sem klifra upp bakið á þeim.