143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það fer að líða að lokum umræðunnar. Margir hafa tekið til máls og eðlilegt að það séu skiptar skoðanir um breytingar á tekjustofnum ríkisins. Það hefur komið mér á óvart hversu víða menn hafa farið í umræðunni og tengt við ýmis önnur mál sem ekki er að finna í þessu frumvarpi. En sannarlega má taka frumvarp eins og þetta og setja það í samhengi við aðrar gjaldskrár og önnur þjónustugjöld sem tekin eru í ríkiskerfinu.

Það sem er á ferðinni í þessu máli er einfaldlega þetta: Þau gjöld sem er fjallað um í þessu frumvarpi hækkuðu um 3% til að tryggja að þau mundu fylgja verðlagi á árinu 2014, samkvæmt ákvörðun Alþingis í lok síðasta árs. Í tengslum við gerð kjarasamninga var orðið við þeirri kröfu aðila vinnumarkaðarins að draga til baka hluta þessarar hækkunar í þeim tilgangi að draga úr verðlagsáhrifum þessara gjaldabreytinga. Er við það miðað í frumvarpinu að gjöldin hækki á árinu 2014 um 2% en ekki 3% eins og áður hafði verið áformað.

Þetta frumvarp hefur legið í þinginu frá því að ég lagði það fram 13. febrúar. Nú er langt gengið á marsmánuð. Það er miður að okkur hafi ekki tekist að taka það til umræðu allan þennan tíma til að tryggja að þessi lækkun á gjöldum sem skattgreiðendur í landinu þurfa að bera í millitíðinni nái fram að ganga.

Hvers vegna er verið að lækka gjöld eins og bensíngjöld, olíugjöld? Hvers vegna er verið að lækka áfengisgjöld og tóbaksgjöld? eins og hv. þingmaður sá sem hér talaði síðast spurði. Ástæðan er ósköp einfaldlega sú sem ég hef hér áður rakið. Við erum að draga úr hækkuninni. Það er verið að hækka gjöldin en ekki eins mikið og áður var áformað.

Þetta mál er sett í samhengi við fjárhagsvanda víða í hinum opinbera geira, t.d. var tekinn upp vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Heilsugæslunni eru gerð nokkuð góð skil í fjárlagafrumvarpinu og farið yfir það hvernig framlögin hafa þróast eins og venja er. Einnig er ágætisgreinargerð þar frá heilbrigðisráðherra um hvaða áform hann hafi á því sviði til að bæta og halda uppi þjónustustiginu. Ef við skoðum heilsugæsluna almennt, þ.e. heildarframlög til heilsugæslunnar að sjúkraflutningum, heimahjúkrun og öðru meðtöldu sem fellur undir heilsugæsluliðinn í fjárlagafrumvarpinu, sjáum við að framlögin hækka frá ríkisreikningi 2012 um 8,8%. Frá fjárlögum ársins 2013 var gert ráð fyrir 2,2% hækkun til heilsugæslustöðva í fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir lækkun, það er gert ráð fyrir hækkun. Heilsugæslunni er síðan gert kleift að afla sér sértekna með komugjöldum eins og mikið hefur verið rætt um hér í dag en sértekjurnar, í þessu tilviki komugjöldin, höfðu staðið óbreyttar frá árinu 2012. Vísitalan hefur síðan þá hækkað um rúmlega 40%.

Nú væri í sjálfu sér hægt að taka þá ákvörðun að láta komugjöldin smám saman rýrna að raungildi þar til þau hættu að skipta máli og fella þau þá bara niður, en við höfum haft það kerfi hér að greitt sé eitthvert lágmarksgjald sem skapi heilsugæslunni sértekjur og á móti komi svo mjög ríflegt framlag frá ríkissjóði. Í tilviki heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, svo að við setjum hlutina aðeins í samhengi, er gert ráð fyrir því að komugjöld muni skila 35 milljónum í auknar sértekjur. Það er sem sagt hækkunin sem þeir sem sækja þjónustu til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu munu finna fyrir. Á móti er framlag á fjárlagalið upp á 4.879 milljónir. Það framlag hækkar frá árinu 2012 um 7,8%, tæp 3% frá fjárlögum ársins í fyrra.

Varðandi áfengisgjöldin og samhengið sem menn setja þessar tölur í þá bendi ég bara á það að áfengisgjöldin eru að hækka, en þau eru ekki að hækka eins mikið og við höfðum áður áformað. Hvers vegna tökum við gjöldin í þessu frumvarpi sérstaklega út? Þetta eru sömu gjöld og stjórnarandstaðan vildi að tækju engum breytingum á árinu 2012. Flestir í stjórnarandstöðunni hvöttu ríkisstjórnina til að hækka engin þessara gjalda á árinu 2014, fyrir yfirstandandi ár. Um það var rætt í desembermánuði. Þá var það krafa stjórnarandstöðunnar að þau lægju óbreytt og rýrnuðu þar með að verðgildi á árinu 2014. Auðvitað voru undantekningar innan stjórnarandstöðunnar. Sumir voru þeirrar skoðunar að það ætti að láta gjöldin halda verðgildi sínu en meginkrafan var sú að það mætti alls ekki hækka þessi gjöld. Það var engu að síður gert vegna þeirrar forgangsröðunar sem ríkisstjórnin hafði og stjórnarmeirihlutinn. Nú er aðeins dregið úr þeim hækkunum. Mér finnst því skjóta mjög skökku við að þeir sömu og vildu engar hækkanir á þessi gjöld komi nú og segi: Hvers vegna eruð þið að lækka þetta? Hvers vegna eruð þið að lækka áfengis- og tóbaksgjald, eins og hv. þingmaður sem hér talaði síðast kvartar undan? Hvers vegna er verið að lækka bensíngjaldið? Hvernig á að tryggja að það skili sér út í verðlag o.s.frv.?

Sú leið er valin í frumvarpinu að lækka þau gjöld sem hafa mest áhrif á verðlagið. Ef sú leið hefði verið farin að fara beint í komugjöld á heilsugæslustöðvar, falla frá gjaldskrárhækkunum þar eða velja einhver önnur gjöld í velferðarþjónustunni, þá værum við annars vegar að taka meðvitaða ákvörðun um að draga úr sértekjum þessara stofnana og þá þyrftu að koma til viðbótar framlög á fjárlögum til að bæta í þau skörð sem þannig væru mynduð, nema menn vildu draga úr þjónustunni, og hins vegar værum við að taka þá ákvörðun að láta verðlagsáhrifin ekki vera í forgrunni. Verðlagsáhrifin eru einmitt meginástæða þess að þetta frumvarp er komið fram, þ.e. viðleitnin til þess að koma til móts við baráttuna gegn aukinni verðbólgu. Sú viðleitni skilaði þó þeim árangri að nú hafa tekist samningar á hinum almenna markaði. Það gerðist í tveimur lotum að uppistöðu til. Fyrri lotan kláraðist í janúar, sú seinni fyrir fáeinum dögum. Ég hef áður tekið það fram í þessari umræðu að ég tel að innlegg ríkisstjórnarinnar hafi skipt máli.

Þetta frumvarp hefur því miður legið óafgreitt í rúman mánuð. Það er kominn tími til að afgreiða það til að lækka þessi gjöld svo að heimilin í landinu beri lægri gjöld en til stóð af viðkomandi vörum og þeirri þjónustu sem hér er undir, fyrst og fremst vörum. Það skiptir máli. Það er verið að slaka út tekjum sem verða þá eftir í vasa heimilanna í landinu. Það er líklega stærsti munurinn á þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni hér og segjast tala sérstaklega fyrir vinstri stefnu og hafa gagnrýnt stjórnarflokkana fyrir að tala fyrir hægri stefnu. Ég lít ekki svo á að þessir fjármunir hverfi og verði engum til gagns, þvert á móti. Við skiljum þá bara eftir hjá heimilunum sem þurfa ekki að láta þá streyma til ríkisins. Það mun auka kaupmátt heimilanna. Það er reiknað út í þessu frumvarpi hversu mikið kaupmátturinn mun vaxa. Það bætir kjör heimilanna og styður við aðrar þær aðgerðir sem er að finna í þessu frumvarpi, sem munu samanlagt auka kaupmátt ráðstöfunartekna á þessu ári. Það ásamt með kjarasamningunum og því að við erum nú komin með verðbólguna niður undir 2%, stefnir í að fara í 2% slétt, þægilega undir verðbólguviðmiði Seðlabankans, er grundvöllur að raunverulegri lífskjarasókn. Það mun tryggja að við fáum viðspyrnu til að gera betur og sannarlega þarf að gera víða betur eins og menn benda á í umræðunni. Það verður ekki eingöngu gert með því að hækka gjöld og skatta og dreifa því síðan út á einstaka fjárlagaliði. Það verður gert með því að efla útflutningsgreinarnar, styðja áfram við vöxt í hagkerfinu, sem er ágætur í augnablikinu, auka fjárfestingu og skapa svigrúm fyrir einkaframtakið sem á svo sannarlega erindi líka á heilbrigðissviðinu. Þar er venjan sú í umræðunni hér á þingi að blanda saman tveimur alveg óskyldum hlutum, annars vegar hreinni einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar sem lítið hefur verið rætt um og fáir talsmenn eru fyrir og hins vegar að virkja kraft einkaframtaksins til að veita þjónustuna á kostnað og ábyrgð ríkisins. Þetta eru tveir óskyldir hlutir en þeim er iðulega blandað saman.

Þær þjóðir sem hafa farið síðari leiðina, að hleypa einkaframtakinu að því að veita heilbrigðisþjónustu, hafa uppskorið ríkulega í auknum afköstum, í sparnaði og meiri fjölbreytni í þjónustunni. Ég er ekki að tala fyrir því að við göngum alfarið inn á þær brautir og hættum að veita slíka þjónustu með rekstri opinberra stofnana, alls ekki, en ég tel að við eigum gríðarlega mikið svigrúm ónýtt til að ná frekari árangri við meðferð skattfjár og til að tryggja hátt þjónustustig í landinu.

Öll sú umræða hefur verið dregin hérna upp á borðið í tilefni af þessu frumvarpi, sem fjallar ekkert um þessa hluti, en menn hafa séð tilefni til að ræða þetta víða og stóra samhengi hlutanna. Ég segi einfaldlega um þetta mál: Þetta er gott mál. Þetta er mál sem kallað var eftir af aðilum vinnumarkaðarins. Þetta mál skilur eftir tæplega 0,5 milljarða hjá heimilunum. Það lækkar eldsneytisreikninginn, það lækkar rafmagnsreikninginn og það lækkar áfengis- og tóbaksgjöldin, en höfum það í huga að þau hækka engu að síður um 2% á þessu ári miðað við árið í fyrra.