143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hvers vegna ekki að hækka veiðigjaldið til að koma til móts við heilsugæsluna, eða jafnvel tekjuskatt? Það er góð spurning. Við erum núna að fjalla um áform ríkisstjórnarinnar sem fela það í sér að ríkissjóði eru afsalaðar 190 millj. kr. á þessu ári vegna lækkunar á áður ákveðinni hækkun á áfengi — 190 millj. kr. eru felldar niður. Þetta mundi duga heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu mjög vel.

Hæstv. ráðherra sagði að stöðu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu væru gerð ágæt skil í fjárlagafrumvarpinu. En þau skil eru ekki betri en svo að allir þeir sem ég nefndi til sögunnar hafa sett fram mjög alvarleg varnaðarorð. Forstöðufólk í heilsugæslunni, fulltrúar læknanna sem þar starfa og einstakir læknar, hafa skrifað opið bréf og öllum þingmönnum og forsvarsfólk bráðaþjónustu Landspítalans hefur einnig komið með varnaðarorð og sagt að niðurskurðurinn hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu leiddi til aukinna útgjalda þegar upp væri staðið.

Við erum að skoða þessi mál í nákvæmlega þessu samhengi. Ef við föllum frá þessum áformum ríkisstjórnarinnar um lækkun á áfengi, brennivíni og bjór, þá getum við komið til móts við þarfir heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Nú spyr ég hæstv ráðherra: Hefur hann engar áhyggjur af stöðu mála í heilsugæslunni? Ætlar ríkisstjórnin ekkert að hlusta á þau varnaðarorð sem frá okkur berast? Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki kvartað mikið á undanförnum árum en hún gerir það nú. Ég tel að við eigum að hlusta á hennar varnaðarorð. Ætlar ríkisstjórnin ekki að gera það?