143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[20:52]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem aðallega hér upp til að þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir gott samstarf í umhverfis- og samgöngunefnd um þetta mál. Hann segir réttilega að allir nefndarmenn hafi lagt sitt af mörkum við að ná þessari sátt í málinu, en hlutur formanns er auðvitað mikill, að ná að skapa vettvang samtals og ekki síður trausts á milli nefndarmanna. Það er nauðsynlegt til þess að menn geti náð samstöðu. Að mínu mati hefur náðst hér mikilvægur árangur og það er lofsvert og sérlega ánægjulegt, í ljósi þeirra atburða og þeirrar stöðu sem við höfum verið í í pólitíkinni, að sýna fram á það í jafn stóru máli og hér er á ferð að hægt sé, með samtali og með trausti á milli fólks með ólíkar skoðanir, að ná samkomulagi.

Það leiðir líka í ljós að það er styttra á milli fólks en við kannski héldum í upphafi. Þetta mál kom þannig inn í þingið að það olli mikilli tortryggni og mikilli úlfúð og þess vegna var byrjunarpunkturinn erfiðari en ella. Þeim mun meira er afrek hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, formanns umhverfisnefndar. Málið er auðvitað ekki búið, það á eftir að ljúka því.

Mig langar til að biðja hv. þm. Höskuld Þórhallsson að lýsa fyrir okkur hvernig hann sjái fyrir sér næstu skref í málinu í samspili ráðuneytisins og hv. umhverfisnefndar.