143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[20:59]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu og hlý orð í garð nefndarinnar. Ég vil nú byrja á að taka það fram að hv. þm. Birgir Ármannsson, sem er formaður utanríkismálanefndar, sem var hvattur til góðra starfa, er einfaldlega á þessu nefndaráliti án fyrirvara. Hann lagði sitt af mörkum og við sem þekkjum þann ágæta þingmann vitum að hann mun að sjálfsögðu gera sitt besta til að lenda sínu máli á farsælan hátt.

Varðandi almannaréttinn má segja að ýmsar athugasemdir hafi komið fram um hann og hverjum hafi sýnst sitt eins og gengur. Vissulega var hann rýmkaður í lögunum frá 2013, frá því sem hann var frá 1999, en þá hafði hann verið þrengdur frá lögunum sem sett voru árið 1971. Ég get því miður ekki svarað þessari spurningu öðruvísi en svo að í ljósi breyttra aðstæðna þurfi að skilgreina þennan rétt nánar. Ég held að það megi segja að hér á árum áður hafi ríkt ágætissamstaða um þennan rétt. Bændur voru yfirleitt ekki að fetta fingur út í það þó menn færu yfir óræktað land, en með tilkomu jarðareigenda sem stunda kannski ekki búskap og með aukinni ferðamennsku með öllu tilheyrandi hafi myndast skilyrði til að breyta, væntanlega bæta, þessari lagareglu.