143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[21:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og líka fyrir að halda vel á mjög flóknu máli. Það er ekki einungis svo að hér sé vel haldið á flóknu máli, heldur er það gert við sérstaklega snúnar pólitískar aðstæður. Ég segi það í fullri einlægni að mér finnst sú úrvinnsla skipta gríðarlega miklu máli að það lánaðist að leiða málið til lykta með því yfirbragði að málið er látið ráða, innihald málsins er látið ráða, en ekki hefðbundin pólitísk vígaferli eða einhvers konar spurning um sigur eða tap. Eins og hv. þingmaður kom hér að þá halda allir haus þegar allir hafa gefið eftir og allir hafa komið með sjálfstrausti að borðinu og fyrir það ber að þakka.

Hv. þm. Róbert Marshall fór aðeins yfir það með nefndarformanni hvernig hann sæi fyrir sér næstu skref. Þar var farið yfir þá nálgun sem hefur verið boðuð og kemur fram í nefndarálitinu þar sem ráðuneytinu verður falið að vinna úr þessum álitamálum í fyrstu atrennu, en síðan fái þingnefndin málið í hendur.

Umræðan um málið á sínum tíma var töluvert mikið á þann veg að í því væru álitamál, ekki bara lögfræðileg eða fagleg, heldur væri líka ákveðin togstreita í samfélaginu, og stundum var talað um skort á sátt. Mig langar að biðja hv. þingmann að segja mér frá því hvernig hann sér fyrir sér aðkomu hagsmunaaðila, þeirra sem helst hafa haft sig í frammi og þeirra sem mestar skoðanir hafa haft á þeirri endurskoðun sem fyrirhuguð er.