143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að tala um mál sem mér finnst mjög mikilvægt að komist sem fyrst að í þinginu. Ég er að tala um hin stóru mál stjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, en að mínu mati eru það skuldamálin og afnám verðtryggingar af neytendalánum. (Gripið fram í.)

Þetta eru málin sem beðið er eftir og búið er að bíða eftir í fjöldamörg ár. (Gripið fram í.) Beðið var eftir almennum aðgerðum allt síðasta kjörtímabil. Búið er að bíða þess að forsendubresturinn sem varð hér fyrir fáum árum verði leiðréttur. Flestallir sem hafa þurft að taka á sig hækkun verðtryggðra lána bíða eftir þessum aðgerðum og eru orðnir langþreyttir á því að bera einir þann skaða sem varð hér við efnahagshrunið 2008. Það er afar mikilvægt að skuldamálin komist til umræðu í þinginu á allra næstu dögum og að samstaða verði milli þingmanna um að koma þessum málum í gegn.

Einnig finnst mér mjög mikilvægt, og það er mín persónulega skoðun, að verðtryggingarmálin verði afgreidd samhliða frumvörpum um skuldaniðurfellingu.

Mikilvægt er að mínu mati að afnám verðtryggingarinnar verði leiðrétt um leið og skuldaleiðréttingin verður framkvæmd eða núna í sumar.

Einnig verðum við að huga að þeim sem nú eru með verðtryggð lán í yfirveðsettum eignum, þeim sem ekki geta endurfjármagnað lán sín yfir í óverðtryggð lán, m.a. vegna hárrar veðsetningar á eignum sínum og vegna hærri greiðslubyrði á óverðtryggðum lánum.

Mér finnst mjög mikilvægt að komið sé til móts við þennan hóp. Það væri meðal annars hægt með því að miða verðtryggingu eldri lána við verðbólguviðmið Seðlabankans eða færa lán þeirra yfir í óverðtryggð lán þrátt fyrir að þau séu eitthvað hærri en veðsetningarhlutfall nýrra lána kveður á um.

Ef sú leið verður farin þarf að koma fram með mótvægisaðgerðir til að lækka greiðslur á lánunum fyrstu árin. Það er kominn tími til að huga að bættum hag þeirra sem hér vilja búa. Til þess þurfum við kjark og þor og það verðum við að hafa. Gleymum því ekki.