143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í ljósi umræðunnar um fjarveru hæstv. forsætisráðherra, sem ekki hefur séð sér fært að mæta í þingsal til að taka þátt í sérstökum umræðum, verður að minna á að hann er ekki aðeins verkstjóri ríkisstjórnarinnar heldur einnig þingmaður með þeim skyldum sem því fylgja. Umræðuefnin hafa ekki verið léttvæg sem óskað hefur verið eftir af hálfu stjórnarandstöðunnar, afnám gjaldeyrishafta, samningar við erlenda kröfuhafa, fullveldismál, styrkir til húsaverndunar sem skiptir hundruðum milljóna, svo fátt eitt sé nefnt.

Það virðist bara vera regla að forsætisráðherra svarar ekki beiðnum þingmanna um sérstaka umræðu. Sum af þessum málum ræddi hins vegar hæstv. forsætisráðherra mikið í kosningabaráttunni en nú virðist sem samtal við þjóð og þing sé óþarft.

Ég óskaði af þessu tilefni eftir því að tekið yrði saman stutt yfirlit yfir þátttöku tveggja síðustu forsætisráðherra miðað við sambærilegan starfstíma. Þar kemur í ljós að hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur svarað 46 óundirbúnum fyrirspurnum og tekið þátt í einni sérstakri umræðu, eins og hér hefur komið fram. Á sambærilegum starfstíma svaraði þáverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir 54 óundirbúnum fyrirspurnum og tók þátt í fjórum umræðum utan dagskrár. Þar á undan svaraði þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde 28 óundirbúnum fyrirspurnum og tók þátt í níu umræðum utan dagskrár.

Augljóst er samkvæmt þessum tölum að formaður Framsóknar er töluverður eftirbátur forvera sinna í sérstökum umræðum sem allir flokkar koma að.

Í ljósi þess að viðveru hæstv. forsætisráðherra hefur verið breytt og hann verður hér á morgun, af hverju er þá ekki orðið við einhverri af þeim umræðubeiðnum sem óskað hefur verið eftir? Er hæstv. forseti sáttur við að þingmönnum sé boðið upp á það að formaður Framsóknarflokksins, þegar hann er á staðnum, neiti ítrekað að taka þátt í sérstökum umræðum? Er slíkt boðlegt gagnvart þingmönnum þegar þeir koma fram með fullgildar beiðnir og óska eftir að eiga orðastað við leiðtoga ríkisstjórnarinnar um brýn mál? Því verður hæstv. forseti að svara.