143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Alveg hrífst ég af því hve stjórnarandstaðan er hrifin af formanni mínum. Ég er ekki hissa á því. Það er náttúrlega maður sem allir vilja hafa með sér því að hann er lausnamiðaður og mikill hugsuður. Það er kannski svolítið annað en margir í þessum þingsal sem nota tímann frekar í eilíft nöldur en í uppbyggilegt starf.

En ég kom hingað upp til að lýsa ánægju minni með að Sundabraut sé komin inn á samgönguáætlun, það er í samræmi við þingsályktun þingmanna Framsóknarflokksins úr Reykjavík. Segja má að björninn sé unninn fyrst hún er aftur komin þar inn.

Jafnframt langar mig í stuttu máli að tíunda hér kostina við lagningu Sundabrautar, ekki síst til að upplýsa hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur þannig að hún velkist ekki í vafa um það lengur að lagning brautarinnar er mikið þarfaverk.

Sundabraut þýðir aukið öryggi í samgöngumálum borgarinnar. Sundabraut er mikilvæg tenging milli borgarhverfa sem og landshluta. Sundabraut eykur möguleika á lóðum á stórkostlegum strandsvæðum hér við sjóinn. Sundabraut er mikilvæg fyrir uppbyggingu fjölbreyttra atvinnutækifæra. Sundabraut styttir leiðina milli athafnasvæða Faxaflóahafna. Sundabraut gefur eða eykur möguleika á smábílabúskap innan borgarmarka og nágrennis. Sundabraut markar mótvægi við flugvallarumræðuna þar sem hún veitir möguleika á uppbyggingu borgarinnar meðfram ströndinni, eins og ég gat um. Þar með má segja að Sundabraut festi flugvöllinn í sessi en styrki samt miðborg Reykjavíkur. Lagning Sundabrautar er miklu heppilegri kostur en að flytja heilan flugvöll. Sundabraut eru efndir á bráðum 20 ára gömlu loforði við Kjalnesinga. Sundabraut er fín í samvinnuverkefni ríkis, borgar og Faxaflóahafna.