143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er furðulegt að heyra stjórnarþingmenn kalla hér eftir afgreiðslu á skuldamálum og afnámi verðtryggingar. Stjórnarþingmenn ætla ekkert að afnema verðtryggingu og ekkert þingmál hefur verið lagt fram um úrlausnir í skuldamálum enda er forsætisráðherra of upptekinn við annað þessa dagana sem kunnugt er.

Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs vegna skýrslunnar eða öllu heldur skýrsluleysið um sparisjóðaspillinguna. Alþingi setti lög um að vinna skyldi skýrslu um þá miklu spillingu og það gríðarlega fjárhagslega tjón sem varð af starfsemi sparisjóðanna og henni átti að skila hér á miðju ári 2012. Slíkt getur auðvitað dregist um nokkra mánuði en það hefur nú dregist í að verða tvö ár.

Formaður nefndarinnar gaf til kynna að skýrslan yrði á borðum þingmanna í nóvember þegar innt var eftir því í haust. Í febrúar var sagt: innan mánaðar, og enn bólar ekkert á skýrslunni. Þessi skýrsla varðar meðal annars ýmis bæjarfélög í landinu og það er alveg ljóst að sveitarstjórnarkosningar eru nærri. Ég legg gríðarlega áherslu á að skýrslan verði lögð fram hið fyrsta og vel og tryggilega fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar þannig að upplýsingar um starfsemi sparisjóða í hinum ýmsu sveitarfélögum landsins séu öllum kjósendum kunnar þegar að kosningum kemur.