143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á því að full ástæða er til þess fyrir þingheim allan að fylgjast grannt með því sem er að gerast vegna verkfalls undirmanna á Herjólfi. Eyjamenn búa nú við mjög erfiðar samgöngur, 14 dagar eru frá því að aðgerðir hófust og samgöngur til Eyja hafa verið í lamasessi.

Í dag fáum við til okkar ályktun frá bæjarráði Vestmannaeyja þar sem ástandinu er lýst. Án þess að ég taki afstöðu í þessari kjaradeilu sem er auðvitað ekki okkar hlutverk verðum við að líta til þess að það er sjálfsögð grunnþjónusta við íbúa eyjanna og þá sem þangað þurfa að sækja þjónustu og annað að hægt sé að komast þangað. Þess vegna verðum við í þinginu að íhuga, ef samningar fara ekki að takast milli aðila, með hvaða hætti okkur beri að taka á málinu. Mig langaði að vekja athygli hv. þingmanna á því.

Þá að öðru. Ég fagna þeirri niðurstöðu sem fram hefur komið um undirbúning á því að nefndin um húsnæðismálin nái að skila skýrslu. Sérfræðingaskýrslan felur það meðal annars í sér að það sé rétt hagsmunamat hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem hvað mest hafa talað um málefni Íbúðalánasjóðs að leggja beri sjóðinn niður. Það hefur verið mín skoðun og ég byggi hana ekki á einhverri vinsældakeppni heldur einfaldlega hörðum rökum.

Það er algjörlega ljóst, og má meðal annars lesa úr svari við fyrirspurn sem ég lagði fram á síðasta þingi, að það er rangt að Íbúðalánasjóður hafi haldið húsnæðismarkaðnum á landsbyggðinni gangandi. Það er einfaldlega rangt og hægt að lesa úr svari við fyrirspurn sem ég beindi til ráðherra á síðasta kjörtímabili. Ef menn kynna sér það og kynna sér málið til hlítar hljóta þeir að sjá að þessum málum má koma betur fyrir. Ég trúi því og treysti að slíkar tillögur (Forseti hringir.) muni koma fram í þinginu innan skamms.