143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fjalla um það alvarlega mál sem upp er komið í Vestmannaeyjum, að þjóðvegurinn þangað sé núna alveg lokaður tvo daga vikunnar og annars mjög takmörkuð ferð um hann.

Frá og með næsta föstudegi verður hann lokaður í þrjá daga. Heilbrigðisþjónustan í Vestmannaeyjum hefur verið skert og ef íbúar þar þurfa til dæmis að fara til læknis kl. 11 á fimmtudegi þurfa þeir að leggja af stað á miðvikudegi og koma heim aftur á mánudegi. Ekki geta allir farið með flugi, bæði út af aðstæðum hjá þeim sjálfum og þar er líka takmarkað framboð.

Það er mjög alvarlegt að samningsaðilar tali ekki saman og þegar þeir hittast er ekkert að frétta. Við í þessum sal verðum því að hvetja þau til að halda áfram. Við þurfum að vera vel upplýst um hvað er að gerast þarna. Ég vek athygli á þessu af því að fjölmiðlarnir virðast hafa meiri áhuga á því hve sjaldan Herjólfur kemst til Landeyjahafnar en að hann komist á milli vegna verkfalls undirmanna.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Unni Brá hefur allt bæjarráð Vestmannaeyja samþykkt áskorun um að samgönguyfirvöld, og eftir atvikum Alþingi, komi að þessari deilu ef aðilar fara ekki að semja. Ég hvet þá til að fara að semja til að við þurfum ekki að ganga svo langt en við þurfum samt að vera tilbúin til þess ef til kemur.

Ferðamálasamtökin, íbúarnir, íþróttafélögin og atvinnulífið allt kalla líka eftir þessari aðkomu stjórnvalda og fullyrða að eins og staðan er að þróast sé ekki hægt að leysa málin nema með aðkomu stjórnvalda.