143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Nokkurt þref var hér í gær um gjaldskrárlækkanir sem birtust í lagafrumvarpi sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram og var í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 21. desember gagnvart aðilum vinnumarkaðarins í tengslum við kjarasamninga.

Tilgangurinn með þessum lækkunum var að stuðla að því að verðlagsáhrifin af þessum verðlagsforsendum fjárlaga yrðu minni en ella og styddu við aðgerðir og markmið Seðlabanka Íslands um verðstöðugleika og yfirlýst verðbólgumarkmið.

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim sjónarmiðum sem komu fram í umræðunni um þessar verðlagsbreytingar eða gerast heilagur talsmaður þess að hér eigi tilgangurinn einn að helga meðalið. Ég vil miklu frekar benda á að hér er gott dæmi um jákvæða stefnumarkandi efnahagshugsun um það hvernig fjármálastefna ríkisstjórnarinnar getur stutt við peningamálastefnuna á hendi Seðlabankans og meginmarkmiðin um stöðugleika í verðlagsmálum.

Efnahagsþróunin er á margan hátt jákvæði og margir hagvísar til vitnis um það. Til að mynda var hagvöxtur hér árið 2013 3,3% af raunvirði og hefur ekki mælst jafn mikill frá árinu 2007. Það sem er enn betra er að hann er mestmegnis útflutningsdrifinn. Verðbólga mældist í febrúar 2,1% og hefur hjaðnað nokkuð hratt og atvinnuleysi hefur hægt og bítandi minnkað og var 4,5% að meðaltali á síðasta ári.

Virðulegi forseti. Þessi jákvæða þróun hefur vikið fyrir hitaumræðunni síðustu vikurnar en svo vill til að hér hafa skapast kjöraðstæður til að klára vinnuna sem fram undan er. Ég legg til að við tökum upp tóninn sem var í náttúruverndarumræðunni síðla gærkvölds og sameinumst um að afgreiða frumvörp um skuldaleiðréttingu sem koma inn í þingið á næstunni og fara samhliða í afnám verðtryggingar (Forseti hringir.) á neytendalánum.