143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp í kjölfar félaga minna úr Suðurkjördæmi, hv. þm. Unnar Brá Konráðsdóttur og hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, til að vekja athygli á ástandinu í Vestmannaeyjum og samgöngumálum þeirra. Það er rosalega erfitt fyrir þingmann að vita hvað hann á að gera til að leysa svona mál því að ekki getum við farið að skipta okkur af kjaradeilum.

Það eina sem maður getur gert er að koma hingað, vekja athygli á málinu og hvetja deiluaðila til að semja sem fyrst. Það er eins og sumir geri sér ekki alveg grein fyrir því hversu gríðarlega alvarlegt þetta er. Á föstudaginn eiga til dæmis að fara að detta niður ferðir með Herjólfi.

Kona skrifaði grein í Eyjafréttir í dag þar sem hún velti fyrir sér hvernig hefði farið ef Hvalfjarðargöngin hefðu verið illa gerð og það hefði ekki verið hægt að fara í gegnum þau nema kannski tvisvar, þrisvar í viku vegna þess að það væri svo slæmur útblástur eða eitthvað vegna handvammar í Hvalfjarðargöngunum. Þá þyrftu þeir sem þyrftu að nota þau daglega að fara Hvalfjörðinn en yrðu svo rukkuð helmingi meira fyrir að keyra Hvalfjörðinn. Ég er hræddur um að það mundi heyrast hljóð úr horni og fljótt gripið í taumana.

Það er í rauninni alveg ótrúlegt að það skuli vera verkfall í svona mikilvægri samgönguæð eins og til Vestmannaeyja. Maður veltir fyrir sér hvernig standi á því að svona hlutir geti gerst, ekki síst þegar félagið sem rekur Herjólf er Eimskip sem skilaði á síðasta ári 1.100 milljónum í hagnað og borgaði eigendum sínum 30% arð. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvers vegna í ósköpunum sé svona erfitt að semja við örfáar manneskjur um kauphækkun eða leiðréttingu launa. Þeir eru einungis að fara fram á leiðréttingu launa fyrir farmenn sem var samið um árið 2011. Það er sorglegt að þessi staða skuli vera uppi í dag og ég get ekkert gert nema hvatt til þess að leysa þetta farsællega svo líf Eyjamanna komist í eðlilegt horf aftur. Þetta er ekki boðlegt.