143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

staða framhaldsskólans.

[15:49]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir að hefja þessa umræðu. Skólar gegna mikilvægu og margslungnu hlutverki í samfélagi okkar. Langflestir verja mörgum árum í menntastofnunum sem gegna veigamiklu hlutverki í uppeldi, menntun og mótun þegna landsins. Í skólunum fá nemendur þann viðmiðunarramma sem tekur til þess veruleika sem þeir lifa í og nauðsynlegur er til að einstaklingar geti búið og haft samneyti í sama samfélagi.

Við lifum á tímum fjölmenningar og margbreytileika og í skólunum er þversnið af íbúum landsins, manneskjur með ólíkan menningar- og trúarlegan bakgrunn, manneskjur af ólíkum þjóðfélagsstigum og þjóðerni. Þar blandast saman ólík viðhorf, gildi og venjur.

Í lögum og námskrá skólanna er lögð áhersla á að skólastarf skuli byggjast á virðingu, réttlæti og jafnrétti, að stuðla beri að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi og að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara námi, að efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun.

Það gerir stöðu skólanna okkar einstaka. Því er mikið í húfi að vel takist til að skapa gott umhverfi og samveruform ólíkra einstaklinga. Þar leikur náið samstarf menntamálayfirvalda og skólans lykilhlutverk. En til þess að skólinn geti sinnt þessu mikilvæga hlutverki sínu er höfuðatriði að við hann starfi vel menntaðir kennarar sem hafa fagmennsku og þarfir nemenda sinna að leiðarljósi, fagfólk sem hefur lagt að baki langt háskólanám til að sinna þessu starfi — en ekki síst ánægðar og góðar manneskjur sem búa við öruggt og traust starfsöryggi. Og þar eiga laun stóran þátt.

Hæstv. forseti. Menntun og menntakerfi okkar er mikilvægasta efnahags- og samfélagsmál þjóðarinnar og á að vera í forgrunni allra ákvarðana yfirvalda hverju sinni.

Mikilvægasta fjárfesting sérhvers ríkis er í menntun og við eigum að hætta að tala um að við séum að eyða peningum þegar hún er annars vegar. Að lokum, að ríkið ætli að nota fyrirhugaðar breytingar á skólakerfinu sem ekki hafa einu sinni verið ræddar í þinginu sem útspil í kjaradeilu við kennara þykir mér í hæsta lagi óeðlilegt og (Forseti hringir.) óboðlegt og virðist eingöngu hafa flækt viðkvæma stöðu.