143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

staða framhaldsskólans.

[15:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var grunnskólanemi í nokkrum verkföllum. Ég var framhaldsskólanemi í verkfalli. Ég var grunnskólakennari í verkfalli.

Frá 1977 hafa verið kennaraverkföll á rétt rúmlega fjögurra ára fresti að meðaltali. Ég hef ýmist verið nemandi eða kennari í rúmum helmingi þeirra. Ég horfði á það af þingpöllum þegar Alþingi setti lög á verkfall kennara árið 2004. Alþingi setti lög sem byggðu á samningi sem kennarar höfðu þegar hafnað með 93% greiddra atkvæða.

Virðulegi forseti. Allir eru sammála um að menntun er verðmæt en tíð verkföll kennara, núverandi verkfall framhaldsskólakennara og yfirvofandi verkfall Félags háskólakennara bendir hins vegar til þess að stjórnvöld meti ekki framleiðendur menntakerfisins að verðleikum.

Fræðslustarfsemi er að meðaltali lægst launaða atvinnugreinin. Er það skrýtið að kennarar fari svona oft í verkfall?

Ég hvet því til þess að framkvæmdarþjónustan, hæstv. menntamálaráðherra, tryggi stöðu fræðslustarfsemi, eins mikilvæg og hún er, til framtíðar, að vinna að sátt með menntastarfsfólki og samfélaginu öllu sem greiðir fyrir þjónustuna, sátt í þágu starfsöryggis, sátt í þágu námsöryggis og sátt í þágu framtíðar íslenskrar hugvitsstarfsemi.