143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

staða framhaldsskólans.

[16:00]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Því miður kemur sú staða ekki á óvart sem uppi er varðandi verkfall kennara nema ef vera skyldi ríkisstjórninni sem mætti að samningaborðinu með úfið hár og stírur í augunum, algjörlega óundirbúin.

Ráðherra leyfir sér að spyrða saman lausn kjaradeilunnar og viðamiklar breytingar á framhaldsskólakerfinu sem hann hefur þó ekki enn lagt fram, eins og hér hefur verið sagt. Það er líka óraunhæft og ófaglegt að ætla að menntastefna þjóðar sé hluti af kjarasamningum, ekki frekar en að samgönguáætlun er hluti af kjarasamningum vegagerðarmanna.

Það er takmark út af fyrir sig að fækka námsárum til stúdentsprófs en við verðum að hugsa um hvað skólastarf er. Er það eitthvað sem á eingöngu að meta eftir reiknilíkani eins og framleiðslu í verksmiðju? Nei, við erum að tala um menntastofnanir þjóðarinnar og fólkið sem þar starfar og lærir.

Ráðherra talar um kerfisbreytingu og að nútímavæða menntakerfið. Manni dettur helst í hug að ráðherra hafi ekki lesið lögin frá 2008 sem þó voru sett í tíð flokkssystur hans, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, og svo nýju námskrána sem kom út í kjölfarið, árið 2011. Nýju lögin eru leið til að minnka brottfall og brautskrá nemendur fyrr en til þess þarf að innleiða að fullu hina nýja menntastefnu sem kemur til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda. Þar er nútímavæðingin, hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra talar líka mikið um að nemendur ljúki námi á svipuðum aldri og annars staðar á Norðurlöndunum og komist þar af leiðandi fyrr út á vinnumarkaðinn. Ráðherra veit vel að íslenskir stúdentar vinna gjarnan með skóla margvísleg störf, enda ekki styrktir eins og víða erlendis og eiga því starfsreynslu umfram nemendur í nágrannalöndum okkar. Því er samanburðurinn ekki einhlítur.

Það verður áhugavert að sjá hin menntunarlegu markmið ráðherra með styttingu námsins og hvort þau bæti nám og/eða kennslu. Eða er það bara stefnan að fækka kennurum og auka þar með laun þeirra sem eftir eru? Fagleg markmið náms og kennslu eiga að ráða för þegar fjallað er um breytingar á skóla. Það er samfélagslega hagkvæmt að byggja á þeim grunni sem lagður hefur verið og klára vinnuna í sátt við skólasamfélagið í stað þess að ætla að þröngva almennum kerfisbreytingum upp á framhaldsskólana í miðri kjarasamningagerð.

Ráðherra þarf að jarðtengja sig og styðja við þær breytingar sem enn er verið að móta (Forseti hringir.) innan skólanna því að, virðulegi forseti, við erum ekki bara að tala um tölur í excel-skjali, við erum að tala um fólk.