143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

staða framhaldsskólans.

[16:02]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Herra forseti. Ég vil aðeins hugleiða brottfall og stöðuna sem við erum í núna í verkfalli framhaldsskólakennara. Sá sem hér stendur stundaði nám í framhaldsskóla á Íslandi í samtals þrjú ár fyrir um það bil 30 árum og voru verkföll öll þau ár.

Fyrsta árið lærði ég að drekka mikið kaffi og lærði texta Megasar utan að. Annað árið drakk ég meira kaffi og rifjaði upp texta Megasar. Þriðja árið fékk ég ógeð á kaffi og fór út á vinnumarkaðinn. Ég hef frestað því að fara aftur í skóla og er enn á vinnumarkaðnum.

Þetta hefur haft mikil áhrif á líf mitt. Ég ætla svo sem ekki að kvarta yfir því hvernig fór en það eru kannski ekki allir jafn heppnir og ég að enda á Alþingi.

Þetta þýddi það að ég leiddist út í til dæmis pönk og pólitík og varð sýniþörfinni að bráð, [Hlátur í þingsal.] sem ég hefði kannski ekki orðið hefði ég orðið langskólagenginn sérfræðingur sem hefði orðið góður og gegn samfélagsþegn. Þetta var fyrir 30 árum og það mun hafa áhrif á líf mitt og allt samfélagið, ekki bara þau ár sem verkföllin eru heldur sennilega í 50, 60 ár. Þetta finnst mér vera grafalvarlegt mál.

Brottfallið í íslenskum framhaldsskólum var þegar hærra en í löndunum sem við berum okkur saman við. Óstöðugleiki og óvissa í skólastarfi mun bara auka á brottfallið og það hefur ekki bara áhrif núna í vetur eða á líf þeirra sem eru í skólanum í dag eða kynnu að falla brott, eins og sá sem hér stendur lenti í, heldur mun þetta hafa áhrif á líf þeirra og samfélagið allt næstu 50, 60 ár. Þetta er grafalvarlegt mál og sýnir, finnst mér, að við höfum ekki haldið á málum framhaldsskólans af nógu mikilli festu og ábyrgð. Ég hvet okkur til að snúa á rétta braut.