143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

staða framhaldsskólans.

[16:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Við heyrum á henni að hv. þingmenn sem hér hafa tekið til máls hvetja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til dáða til að vinna að lausn á þessari kjaradeilu og til að berjast þar fyrir bættri stöðu kennara og menntastétta í kerfinu í heild.

Hér hefur komið fram að hækka þurfi grunnlaunin, það þarf að viðurkenna þessi störf til jafns við þau sem eru í viðskiptalífi og lögfræði og annars staðar. Fyrr næst aldrei sátt um þetta. Við erum öll sammála um að það þarf að vera fjölbreytileiki og sveigjanleiki. Við héldum að búið væri að búa til lagaramma sem hægt væri að byggja á. Ég hvet hæstv. ráðherra til að vinna út frá þeim lagaramma. Ég hvet hann til að hafa það samstarf sem hér hefur verið umræða um, bæði við kennara, skólastjóra, nemendur og foreldra og þá sem skapa umræðu í landinu í heild um lausnir.

Hér hafa komið ágætisábendingar um það hvernig nýta má tækni sem við erum framarlega í í mörgum skólum nú þegar og skapar ný tækifæri. Við höfum unnið vandaðar skýrslur um brotthvarf úr skólum, en á sama tíma og við vorum að vinna til dæmis að tengingu atvinnulífsins og skólanna í gegnum verkefnið Nám er vinnandi vegur var það verkefni skorið hressilega niður á þessu ári, illu heilli, og engin eftirfylgni á þeim úrræðum sem þar höfðu þó reynst gríðarlega vel til að hjálpa fólki að komast í gegnum framhaldsskólann.

Ég vona að þessi umræða verði líka hvatning til þess að við látum ekki fjármála- og efnahagsráðuneytið móta skólastefnu á Íslandi. Það er ekki rétti vettvangurinn til þess. Ég hvet til þess að þessi umræða eigi sér stað hér og úti í samfélaginu og að við breytum áherslum sem við höfum glímt við í fjöldamörg ár, að við berjumst fyrir því að ríkisstarfsmenn, hvort sem er í uppeldis- og menntastörfum eða í heilbrigðisstéttum, fái störf sín metin að verðleikum, þá frábæru vinnu sem þar hefur verið unnin á undanförnum árum og unnin er enn þann dag í dag.

Það er verkefni okkar (Forseti hringir.) á þingi, það er verkefni fjármálaráðuneytisins og það er verkefni hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.