143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér til svara í umræðu um almannarétt og tengingu hans við þá gjaldtöku sem hafin er á ferðamannastöðum um landið og síðan þá gjaldtöku sem stjórnvöld hafa unnið að skipulagningu á í kringum svokallaðan náttúrupassa.

Þetta hefur að vísu verið rætt á þinginu en ekki út frá þeim mikilvægu lögum og reglum sem við eigum hér á landi um almannarétt sem lúta að frjálsri för almennings um landið. Uppruna almannaréttarins má rekja til fornra laga og reglna í Rómaveldi hinu forna um hin sameiginlegu gæði sem voru til að mynda andrúmsloftið og aðgengi að sjó sem talin voru svo mikilvæg að þau urðu að vera almenningi aðgengileg til frjálsra afnota.

Það má eiginlega segja að þessar reglur hafi æ síðan endurspeglast í rétti vestrænna ríkja og þessar reglur endurspeglast líka í Jónsbók, hinni fornu íslensku lögbók þar sem fjallað er um rétt landeigenda yfir jarðargróðri þeim sem vex á landi þeirra þar sem fram kemur að menn megi æja hestum sínum á landi í annarra eigu sem ekki hefur verið slegið. Þar kemur líka fram að bændum beri beinlínis að gera vegi þar sem almannaleiðir hafa verið mestar. Þeim beri að höggva skóg og sé hann ekki hogginn sé vegfarendum frjálst að gera það því að þannig var almannarétturinn hugsaður. Þessi ákvæði endurspegla víðtækan fararrétt almennings og fólu í sér að landeigendur urðu að þola að meginstefnu bótalaust ferð manna um land sitt.

Þó að ég fari kannski hér nokkuð aftur í tímann finnst mér það mikilvægt því að þetta sýnir hina ríku hefð. Almannarétturinn birtist í vatnalögum 1923, hann birtist í fyrstu íslensku náttúruverndarlögunum 1956 og síðan þá hefur hann verið hluti af náttúruverndarlögunum.

Nú horfum við hins vegar upp á aðgerðir sem kalla má nokkurs konar villta vestur þar sem landeigendur eru farnir að hefja hér gjaldtöku, jafnvel á landi sem ekki er alfarið í þeirra eigu. Má þar nefna Geysissvæðið þar sem ríkið er líka einn af landeigendum og hafa staðið þar yfir deilur.

Við heyrum um sjónarmið frá sveitarstjórnarmönnum sem ætla að setja upp gjaldtöku við Seljalandsfoss, Skógafoss og hér og þar á Suðurlandi svo dæmi sé tekið. Rætt er um gjaldtöku fyrir norðan, í kringum Mývatn, og á meðan er unnið að hugmyndum um svokallaðan náttúrupassa. Umhverfisráðuneytið hefur átt aðild að þeirri vinnu og er þar verið að tala um eina gjaldtöku fyrir landið allt.

Hér hefur umræðan kannski fyrst og fremst snúist um að tryggja þurfi einhverja fjármuni. Ég held að allir séu sammála um að það þarf að tryggja fjármuni til uppbyggingar innviða á friðlýstum svæðum, það þarf að tryggja fjármuni til uppbyggingar á ferðamannastöðum, en hvernig ætlum við að tryggja þá fjármuni?

Ég tel það algjörlega óásættanlegt til að byrja með að þeir séu tryggðir með einhverri hipsumhapsgjaldtöku úti um land sem engin yfirstjórn er á. Ég velti fyrir mér og hef um það verulegar efasemdir að sú gjaldtaka sem við höfum heyrt um í formi náttúrupassa sé rétta leiðin til að tryggja þessa fjármuni þar sem gert er ráð fyrir að allir þurfi að greiða gjald fyrir að sjá íslenska náttúru og að með því verði haft eftirlit hvort fólk sé með slíkan passa eða ekki.

Ég hef fyrst og fremst efasemdir um það út frá því hvort það geti samrýmst hinum forna almannarétti sem við höfum haft hér í lögum og hefur verið mjög mikilvægur hluti af löggjöf vestrænna ríkja, við sjáum það þegar við skyggnumst undir yfirborðið og sú leið sem er í skoðun hjá stjórnvöldum núna er ekki byggð á fordæmi frá öðrum löndum. Víða greiðum við að sjálfsögðu ýmiss konar álögur á gistingu, farseðla og annað slíkt sem ætlað er til einhverrar slíkrar uppbyggingar ferðaþjónustu, en aðrar þjóðir hafa ekki farið þá leið sem nú er verið að tala um, þ.e. að allir kaupi sér sinn passa fyrir að fá að stoppa á ferðamannastöðum, sem væntanlega þarf að skilgreina út frá einhverjum „kríteríum“. Væntanlega þarf maður þá að vita hvenær maður þarf að hafa passann þegar maður stoppar á þjóðveginum og hversu langt frá viðkomandi svæði maður má vera.

Hér er um að ræða almannarétt, þann mikilvæga rétt í vestrænni löggjöf, og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig telur hann annars vegar þá gjaldtöku sem nú er hafin hér og þar samrýmast lögum um almannarétt? Hvernig telur hann hugmyndir stjórnvalda um náttúrupassa samrýmast lögum og reglum um almannarétt? Telur hann þessa leið einu leiðina til að tryggja fjármagn til uppbyggingar á ferðamannastöðum og til eflingar innviða friðlýstra svæða eða telur hann rétt í því samhengi að skoða líka aðrar leiðir? Ég nefndi hér farseðlagjöld, gistináttagjöld og (Forseti hringir.) rætt hefur verið um hækkun á virðisaukaskatti til að tryggja þá fjármuni sem við erum öll sammála um að þurfi inn í þetta kerfi.