143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir þessa umræðu og ekki síst nálgunina sem hún kemur með inn í hana sem snýr að almannarétti, en við höfum meira verið að ræða hvernig við getum innheimt gjöld af ferðamönnum.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram, það skiptir máli að við reynum að finna leið í gjaldtöku sem tryggir engu að síður almannarétt. Það er ekki hlaupið að því, sérstaklega ekki í ljósi þess ástands sem uppi er núna. Það ríkir hálfgert gullgrafaraæði í þessum bransa, ef svo má að orði komast, á þeim tímum sem nú eru.

Mér þykir gott að heyra hæstv. ráðherra segja að hann fagni því að nú séum við loks orðin samstiga í því að það þurfi að gera eitthvað í málinu vegna þess að við óskuðum svo sannarlega eftir því á síðasta kjörtímabili þegar við komum með tillögur um gistináttagjald og gjöld sem innheimt yrðu í gegnum flugfélögin. En ekkert varð úr samstöðunni þá og menn voru ekki til í að leggja neinar nýjar tillögur á borðið; bara engin gjöld, punktur, var krafa þáverandi stjórnarandstöðu.

Núverandi stjórnarandstaða skilur málið sem betur fer og loksins eru ríkisstjórnarflokkarnir líka farnir að skilja mikilvægi þess að við náum góðri samstöðu um málið. Þess vegna vona ég að vel verði hlustað á það sem við höfum að segja í málinu. Ég tel mjög mikilvægt að við förum frekar í almenna leið og tryggjum að það verði almenn gjaldtaka af ferðamönnum frekar en að við förum að loka af einstaka svæðum eins og nú er að gerast varðandi innheimtu.

Gallinn við það er nefnilega sá að þá eru menn farnir að hafa þá auðlind sem heitir náttúruperlur, sem laða að sér ferðamenn, að féþúfu. Þá erum við að mínu mati komin í annað auðlindastríð á Íslandi, ef svo má að orði komast, sem við höfum enga stjórn á, eins og við (Forseti hringir.) höfum til dæmis lent í varðandi sjávarútveginn. Það verður mjög stutt í að menn fari að raka að sér þeim auðlindum sem skila tekjum, til dæmis af ferðamönnunum. (Forseti hringir.) Þess vegna verðum við að ná tökum á ástandinu núna og ég veit að (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan er til í þá vinnu.