143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:27]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég vil fyrst segja að það er ótækt ástand að það sé verið að móta stefnu í gjaldheimtu með mismunandi hætti á ólíkum ferðamannastöðum víðs vegar um landið. Ég hvet stjórnvöld til þess að beita sér í því að reyna að ná samkomulagi við þessa aðila um að hinkra við þannig að við getum verið með eina samræmda stefnu í þessum efnum. Það sjá allir að af þessu skaðast allir.

Í öðru lagi vil ég segja að mér finnast þær hugmyndir sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa kynnt þess virði að þær séu að minnsta kosti skoðaðar frekar. Ég ætla ekki að hafna þeim fyrir fram. Ég bíð eftir að þær komi inn í þingið og vil skoða þær. Í þeim gætu verið fólgin fyrstu skrefin í þessum efnum. Að minnsta kosti væri óráð að mínu mati að afgreiða málið fyrir fullt og fast í einu lagi, menn gætu kannski séð fyrir sér einhvers konar tilraunatímabil þar sem við næðum inn einhverjum fjármunum til að bregðast við bráðavanda á fjölförnustu ferðamannastöðunum sem blasir við okkur núna.

Í þriðja lagi vil ég nefna í þessari umræðu grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær eftir Einar Á. E. Sæmundsen, sem er fræðslufulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum, þar sem hann kynnir leið Nýsjálendinga í þessum efnum. Hún hefur verið þannig framkvæmd að ferðaþjónustuaðili sem fénýtir ferðamannastað er með samning um það og skilar sérstöku gjaldi í sameiginlegan sjóð.

Það er nokkurs konar útfærsla af auðlindagjaldi sem ég held að sé mjög sanngjarnt og við ættum að skoða frekar.