143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Náttúru Íslands fylgir ákveðin frelsistilfinning. Stór hluti þeirrar frelsistilfinningar er sú staðreynd að við höfum greiðan aðgang að náttúrunni. Það er ekki það sama að sjá dýr í náttúrunni annars vegar og dýr í búri hins vegar. Það er eins með náttúruperlur Íslands. Með því að láta fólk borga fyrir það eitt að koma nálægt eða sjá jafnvel náttúruperlur Íslands drögum við úr verðmæti sjálfra perlnanna því að stór hluti verðmætis þeirra er sú staðreynd að náttúran er ekki í neinu búri. Hún er bara þarna og það vill svo til að vér mannfólkið búum nálægt henni. Það er fallegt, það er dýrmætt.

Að því sögðu þarf vissulega að vernda náttúruna, svo mikið er víst og það er enginn ágreiningur um það. Enginn hefur tekið til máls og lýst því yfir að um hjátrú sé að ræða eða að verkefnið sé ekki brýnt. Það er það. En aðferðirnar mega ekki verða til þess að ímynd ósnortinnar og frjálsrar náttúru Íslands verði eins og mynd af dýri í búri.

Það er vissulega eðlilegt að taka gjöld, það er fullkomlega eðlilegt, nauðsynlegt og brýnt, en ferðamannaiðnaðurinn er í blóma enn þá og það er um margar leiðir að velja. Við kostnaðarmat okkar skulum við taka frelsið með í reikninginn.