143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:35]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda kærlega fyrir að koma með þetta mál inn á Alþingi vegna þess að stjórnvöld verða að bregðast við mikilli fjölgun ferðamanna til Íslands og finna leiðir til verndar náttúru landsins. Um þetta tel ég að við séum öll sammála.

Jafnframt held ég að flestir sjái að undan einhvers konar gjaldtöku getum við ekki vikið okkur til að geta verndað náttúruperlur okkar sem og ferðamannastaði gegn ágangi fólks. Þarna þurfum við að finna leið sem getur skilið á milli hagsmuna almennings til frjálsrar farar um landið og þarfar hinnar ört vaxandi ferðaþjónustu.

Hugmyndin að náttúrupassa er að mörgu leyti góðra gjalda verð en ég tel að við verðum að gefa okkur meiri tíma til að vinna betur með og úr þeirri hugmynd. Við þurfum að finna betri greiningu á kostum og göllum passans sem og hvernig við getum útfært skiptingu fjármagns til uppbyggingar og varnar á ferðamannastöðum. Vissulega hefur gjaldtakan á Geysi ýtt við fólki að hefjast handa en ég bið um að við hugsum málið í ró og yfirvegun.

Ég nefni sem dæmi þjóðgarðinn á Þingvöllum og gerð fjárhagsáætlana. Getum við varðandi útdeilingu fjármagns treyst á við gerð þriggja ára fjárhagsáætlunar visst fjármagn sem við fengjum ár hvert? Það er mjög mikilvægt að ferðamannastaðir búi við slíkt öryggi. Einhvers konar öryggis- og náttúrugjald er þó nauðsyn og því gjaldtaka eða skattur af ferðaþjónustuaðilum sem nýta náttúruna.

Almannarétturinn er vissulega gríðarlega mikilvægur og djúpt staðsettur í þjóðarvitund okkar. Bjartur í Sumarhúsum þráði heiðalönd fram yfir betra jarðnæði neðar í dalnum. Geysimörg okkar eru nokkuð lík honum og þrá frjálsræðið í náttúrunni fram yfir margt annað. Náttúrupassi eða önnur gjaldtaka má ekki eyðileggja þennan rétt, (Forseti hringir.) rétt okkar til frjálsrar farar um landið.