143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Mig langar að nefna nokkur atriði við lok hennar.

Í fyrsta lagi er alveg ljóst að sú gjaldtaka sem nú er iðkuð af ýmsum landeigendum úti um land er ekki í lagi, við erum sammála um það. Ég þykist greina það á máli hæstv. ráðherra og hv. samflokkskonu hans, Sigrúnar Magnúsdóttur, að það sé eðlilegt að skoða fleiri leiðir en þá einu sem nú hefur verið rædd mest í fjölmiðlum sem er þessi náttúrupassaleið af því að sú leið getur hugsanlega þrengt að rétti almennings. Það er annað að krefjast þess að allir kaupi passa til að geta stoppað við Seljalandsfoss þegar keyrt er með fjölskylduna austur á Höfn og fólk langar bara rétt að fara út og sýna börnunum þessa dásemd eða Skógafoss, Paradísarhelli og Vík í Mýrdal. Ég veit ekki hvort þetta eru allt ferðamannastaðir en þetta eru allt stórkostlegir staðir, líka Kvernufoss sem er kannski ekki ferðamannastaður, og öll leiðin meðfram Suðurlandinu, svo sem Skaftafell. Það er annað að taka gjald fyrir veitta þjónustu. Ég tek undir með þeim sem tala um að það sé annað að borga í stöðumæli en að þurfa að vera með passa sem maður þarf að sýna til að geta horft.

Þetta eru í mínum augum þessi þrjú stóru atriði. Það eru nokkrir möguleikar í boði. Eitt af því sem við getum mjög mikið lært um og hefur verið bent á á fundum um lýðræðið og stjórnmálamenninguna að undanförnu er að undirbúningur svona mála skiptir öllu til að við getum náð lendingu um þau á þinginu og verið sátt.

Þetta hefur verið í undirbúningi. Við heyrum fregnir af ósætti í þeim samráðshópi sem hefur starfað að þessu máli af því að fólk vill láta greina betur aðrar leiðir. Því brýni ég hæstv. ráðherra til að sjá til þess að það verði gert og að vel verði að þeim undirbúningi staðið. Þetta er vissulega á þingmálaskrá núna og menn tala um að það þurfi að hafa hraðar hendur. Mér finnst eiginlega mikilvægara að við vöndum okkur og náum leið sem við getum verið sátt við þannig að við skerðum ekki þennan rétt.

Svo þakka ég hv. þm. (Forseti hringir.) Brynjari Níelssyni fyrir að minna okkur á mikilvægi þess að koma almannaréttinum í stjórnarskrá. Ég er hjartanlega sammála honum um það.