143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

almannaréttur og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[16:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnalega umræðu og fjölmörg sjónarmið sem hér hafa komið fram þó að það sé meiri samhljómur í þingmönnum en oft áður.

Hér ræddu þingmenn þó um stefnuleysi og meiri háttar klúður. Ég held að það sé að nokkru leyti rétt og það er búið að vera svo í áratugi. Þessi ríkisstjórn er þó að taka á málinu.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttur ræddi um að stjórnarandstaðan hefði verið á móti allri gjaldtöku á síðasta kjörtímabili. Það er ekki rétt. Ég fór fyrstur manna í ræðu og studdi bæði komugjöld og gistináttaskatt. Gistináttaútfærslan reyndist hins vegar algjört klúður, skilaði engu og var tóm vandræði. Komugjöldin enduðu líka þannig sem hefur verið reiknað út að 50% af þeim voru greidd af Íslendingum, það lagðist á innanlandsflugið og þingið hafnaði því.

Þá gerðu menn ekkert sem þeir hefðu kannski betur gert fyrr. En viðkvæðið núna er að halda áfram og reyna að finna skynsamlegustu leiðina. Hún byggir að einhverju leyti á jafnræði. Hún byggir að einhverju leyti á því að almannaréttur verði tryggður. Hún byggir að einhverju leyti á því að ferðamannasvæðin geti treyst því að úthlutun og úthlutunarreglur verði skýrar þannig að fram fari uppbygging. Hún byggir að einhverju leyti á því að framkvæmdaáætlun til þessarar uppbyggingar verði á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og gjaldtökuleiðin á forræði atvinnuvegaráðuneytisins, þ.e. iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins.

Það er mjög mikilvægt að ráðstafa fjármununum ekki bara til innviðauppbyggingar heldur líka til öryggismála. Varðandi almannaréttinn alveg frá örófi alda var það allt annað mál þegar hér voru engir vegir og það varð að tryggja almannaréttinn svo menn kæmust á milli. Nú er hið opinbera búið að leggja vegi þannig að almannaréttur er allt annar en hann var fyrir nokkrum öldum. Hann er hins vegar mikilvægur per se og við þurfum (Forseti hringir.) að útskýra og ákveða með hvaða hætti (Forseti hringir.) hann sé tryggður.

Að lokum þakka ég málshefjanda, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, fyrir að hefja umræðu um þetta mjög svo mikilsverða málefni.