143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[17:54]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar Matvælastofnun ræddum við fyrir áramótin töluvert um þær fjárveitingar og sérstaklega í tengslum við svokallaða IPA-styrki og auðvitað aðra fjármögnun. Það er kannski ein ástæðan fyrir því að ég varpaði akkúrat þessu fram til hæstv. ráðherra, og ég vona að hann svari því í lokaræðu sinni: Er Matvælastofnun tilbúin til að taka á móti þessum verkefnum eða flytjast einhverjir starfsmenn á milli? Það er ekki nóg að tala bara um fjármagnið. Eru starfsmenn til staðar eftir þann niðurskurð sem hefur átt sér stað? Ég hef efasemdir um að þetta geti gengið eftir.

Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi sveitarfélög og áhrif þeirra og vald til þess að hafa eitthvað um það að segja hvernig nærsvæði þeirra lítur úr. Ég mundi sjálf vilja ef til stæði að vera með slíkt eldi fyrir utan heimabyggð mína að við hefðum eitthvað um það að segja, því að eins og réttilega var komið inn á hefur þetta töluverð áhrif á ásýnd.

Ég tek líka undir það að ég hugsa að besta hugmyndin sé að bjóða upp leyfin, þó að ég hafi ekki endilega diskúterað eða skoðað það alveg ofan í kjölinn hvort einhverjir aðrir hagsmunir geti vegið þar sem gætu haft áhrif á stöðuna. Það sem kemur fram í frumvarpinu er jákvætt, en ég kom kannski ekki inn á það áðan að krefja á þá sem sækja um leyfi, þ.e. að þeir hafi fjármagnað sig að ákveðnu marki. Ég held að afar gott sé að það sé inni að sá sem sækir um slíkt leyfi þurfi að geta sýnt fram á það fjárhagslega að hann geti staðið í því. Það styrkir kannski enn frekar slíkt uppboð eins og hér hefur verið nefnt.