143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[18:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við vitum hvað fellur niður en ég verð að viðurkenna að ég get ekki greint hvaða verkefni gætu hugsanlega komið í staðinn. Aftur á móti verðum við að taka alvarlega þau loforð sem gefin eru í stjórnarsáttmálanum um að reyna að færa verkefni út á svæðin og þá kannski ekki hvað síst ný verkefni, þ.e. þar sem verið er að byggja upp einhverja nýja starfsemi, að hún sé færð til. Það er alveg augljóst að miklu víðar en við gerum í dag er líka hægt að færa hluta af stofnunum út á land og láta þær þjónusta á viðkomandi heimasvæðum.

Mér finnst þetta hafa komið mjög vel í ljós til dæmis þegar menn lentu í mikilli vinnu í kringum Kolgrafafjörðinn á Snæfellsnesi; Náttúrustofan í Stykkishólmi, Hafrannsóknastofnunin í Ólafsvík, þessir aðilar koma allir að því að leysa þar mál. Ef maður skoðar það svo í samhengi við að þurfa alltaf að fara með mannskap úr Reykjavík, sem var að vísu til viðbótar í þessum tilfellum líka, í enn meira mæli sér maður hversu mikilvægt það er að vöktun, eftirlit, aðhald sé sem næst notandanum.

Oft hafa menn verið að spara og færa þetta á einn stað og þá hafa menn borgað til baka það sem sparaðist með því að borga dagpeninga, ferðakostnað og miklu lengri vinnutíma þar sem það tekur heila daginn að ferðast til að vinna tveggja klukkutíma vinnu.

Á Vestfjörðum eru miklar vegalengdir en eins og ég segi er vonandi að samgöngur batni þar á milli suður- og norðurfjarðanna þannig að hringurinn opnist með nýjum Dýrafjarðargöngum. Þá opnast líka ný tækifæri.

Sum af þessum laxeldisfyrirtækjum eru háð þessu líka. Þau vinna báðum megin þannig að þau þurfa á því að halda að þessar samgöngur batni til að þetta virki almennilega.

Ég get ekki svarað því nákvæmlega hvað það er sem kæmi í staðinn fyrir þetta á Fiskistofu. Aftur á móti er athyglisvert að umfangsmikil starfsemi (Forseti hringir.) er tengd sjávarútvegi á þessu svæði og mætti aukast verulega.