143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[18:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir að það sé kannski óvenjulegt vil ég beina því til hæstv. ráðherra að hann svari því — af því að hann nefndi það í ræðu sinni áðan að hann hefði óskað eftir því við Fiskistofu að hún skoðaði það hvaða önnur verkefni væri þarna um að ræða, þ.e. hjá Fiskistofu fyrir vestan. Það væri áhugavert að vita hvað það væri sem kæmi í staðinn. Þá skil ég það þannig að þrátt fyrir þá lækkun sem hér kemur fram í þessum tekjum Fiskistofu eigi ekki endilega að skerða starfsemina. Ég kýs að líta svo á miðað við það sem hæstv. ráðherra sagði áðan. Hann leiðréttir mig vonandi ef það er ekki rétt.

Af því að við höfum aðeins rætt fjármálin í tengslum við þetta frumvarp og hv. þingmaður hefur lýst ánægju sinni með gjaldmiðilinn sem tekinn er til í því langar mig að spyrja hann sem fyrrverandi formann fjárlaganefndar hvað honum þyki um þær athugasemdir sem hér koma fram, að þetta sé gert. Hér er eindregið lagst gegn því að þetta sé gert svona og því velt upp að þetta sé álitamál varðandi aðra skatta og skyldur sem þessi fyrirtæki greiða í sjávarútveginum. Erum við hér að setja fordæmi? Er þetta það sem koma skal, að allt sem tengist útflutningsgreinum að einhverju leyti, og lög voru sett um hér, að þar verði notaður annar miðill til viðmiðunar en krónan? Hvernig metur þingmaðurinn það?

Mér sýnist, eins og ég segi, að það sé ekki beint í takt við það sem að minnsta kosti ráðuneytið telur heppilegt.