143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[18:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargóð svör við mörgu af því sem tekið var upp. Undir umræðunni, ekki síst þegar við fórum að snúa okkur að þeirri uppbyggingu sem fram undan er í þessari grein og hversu hátt verð er í henni, rifjaðist upp fyrir mér hversu miklar sveiflur eru í henni. Ég minnist þess að hafa farið með hv. fjárlaganefnd árið 2003 í heimsókn í eldi sem þá var í Mjóafirði og þá var verðið á afurðunum komið niður úr öllu valdi.

Oft hafa rekstrarskilyrði í þessari grein á Íslandi orðið mjög léleg. Því miður eru mörg dæmi um fyrirtæki sem við slíkar aðstæður hafa ekki haldið uppi nægilega miklum gæðum í starfsemi sinni eða farið nægilega að þeim reglum sem eiga að tryggja öryggið í kringum þessa starfsemi. Þess vegna er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra við lok umræðunnar hvort hann hafi engar áhyggjur af þessari einföldun á eftirlitinu, þ.e. áhyggjur af því að það verði slys í kringum þessa starfsemi, að eldisfiskurinn blandist við hinn náttúrulega, að það verði einhver erfðamengun þar á milli eða annað slíkt sem ógnað gæti þeim miklu verðmætum og hagsmunum sem við höfum í hinum náttúrulega laxi og þeim miklu tekjum sem menn hafa af honum víða um land.