143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[18:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski erfitt á tveimur mínútum að fara nákvæmlega yfir stöðu veiðigjaldsnefndar, hvernig hún hefur verið að vinna síðustu missirin og kannski er það ekki til umfjöllunar varðandi þetta frumvarp. Hér er verið að búa til grundvöll svo að hægt sé að tilnefna í þennan samráðshóp, það var það sem út af stóð, sem er vettvangur þess samráðs, á að fylgjast með störfum veiðigjaldsnefndar og fara betur yfir þær sérstöku ákvarðanir sem veiðigjaldsnefnd tekur um sérstakt veiðigjald eins og stendur í lögunum.

Veiðigjaldsnefndin hefur, svo að ég noti þó þann tíma sem ég hef, verið að vinna samkvæmt þeim atriðum í stjórnarsáttmálanum og þeim verkefnum sem ég hef beint til hennar að finna leiðir til að afkomutengja kostnað við veiðar á einstökum stofnum, á einstökum tegundum, til að afmarka þann hluta gjaldsins við afkomutengdar veiðar á einstökum tegundum. Það er áhugaverð vinna sem hefur gengið ágætlega eftir að menn fundu leiðir til að finna þær upplýsingar sem ávallt hefur vantað upp á. Ég vænti þess að þetta sé að verða það skýrt og þá verður áhugavert að koma þessum samráðshópi á sem fyrst, koma þessu frumvarpi til atvinnuveganefndar og klára það hér í þinginu til að þessi vettvangur skapist. Ég hef jafnframt lýst því yfir og hef nú þegar gert með þeim hætti að bæði ráðuneytið og aðstoðarmenn mínir hafa verið tilbúnir að koma á fund í atvinnuveganefnd og upplýsa um einstök mál er tengjast vinnu veiðigjaldsnefndar. Ég vænti þess að þetta muni skýrast nokkuð vel á næstu dögum og vikum.