143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[18:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt er að geta þess að unnið er að heildarfrumvarpi um breytingar á stjórn fiskveiða með tilheyrandi veiðigjöldum. Vonandi kemst það inn í þingið sem fyrst. Þessi mál yrðu þá brotin til mergjar í nefndinni og allar upplýsingar sem því tengjast yrðu bornar fram til að rökstyðja málið og gestir yrðu kallaðir á fund nefndarinnar.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp af hverju þessi mál eru komin inn í tengslum við frumvarp um rækjuúthlutun. Það er vegna þess að það er mat margra, meðal annars margra í nefndinni, að rækjuveiðar standi ekki undir neinum veiðigjöldum og þannig sé reyndar staðan með nokkra fleiri stofna og veiðar á ýmsum stöðum. Þess vegna er þessi vinna atvinnuveganefndar til komin núna. Ég tel fullkomlega eðlilegt að þær upplýsingar sem tengjast þessu komi fyrir atvinnuveganefnd. Ég held að það hafi einmitt verið tilgangur heimsóknar ráðuneytisins á fund atvinnuveganefndar í síðustu viku, þ.e. að upplýsa um það sem menn þó þekkja um þessar tilteknu veiðar.

Það er rétt að rifja það upp að ástæðan fyrir því er sú að menn hafa komist að því að það er óframkvæmanlegt að leggja veiðigjöld á úthafsrækjuveiðar. Þá stendur ekki nokkur útgerð undir því og ég held að allir séu sammála um það. Þannig er það bara líka með nokkrar aðrar tegundir.