143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[19:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson spyr mig út í þetta litla frumvarp og það sem ég var að tala um áðan. Við verðum fyrir það fyrsta að gera alveg skýran greinarmun á veiðigjaldsnefndinni, sem er samkvæmt lögunum skipuð þremur mönnum, og samráðsnefndinni, sem hugsuð var sem samráðsnefnd við þingflokka til að tengja betur saman upplýsingar frá veiðigjaldsnefndinni og skiptast á skoðunum þannig að þingflokkar gætu komið málum sínum til veiðigjaldsnefndar og eftir atvikum tekið til umræðu í þingflokkum það sem veiðigjaldsnefnd væri að vinna.

Ég lýsti því áðan að orðalagið hefði kannski mátt vera betra, það var kannski feill eða hugsanavilla í því sem við settum þar fram, þ.e. að tala um fimm manns, með einn fulltrúa úr hverjum þingflokki. Frekar hefði átt að tala þar um fulltrúa þingflokka. Auðvitað breytist það síðan með kosningum, þá koma inn nýir þingflokkar og aðrir fara eins og gerðist síðast. Það hefði mátt gera þá.

En ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra og ráðuneytið hafi ekki heldur áttað sig á þessu fyrr en of seint vegna þess að við vorum með veiðigjaldslögin opin á sumarþinginu 2013 og breyttum þar upphæðum veiðigjaldanna. Þá hefðum við getað breytt þessu í leiðinni, það hefði verið hægt. En svona er þetta bara, þetta var yfirsjón. En ég geri skýran greinarmun á því sem hv. þingmaður spyr út í, annars vegar störfum veiðigjaldsnefndar og hins vegar þeirrar samráðsnefndar sem hér er lagt til að breyta.