143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[19:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að grípa það sem þingmaðurinn sagði hér síðast og inna hann eftir því, hvort hann geti hugsað sér, þegar hann talar um samtímasköttun á veiðigjöldum, það í samræmi við fyrirkomulag eins og virðisaukaskattskerfið. Eða í hvað er hann að vísa þegar hann talar um samsköttun, hvaða leiðir eru þar færar?

Hér hefur verið talað um veiðigjöldin út frá því litla frumvarpi sem liggur fyrir og er í raun full ástæða til. Það er mjög súrt, eins og hér hefur verið sagt, að þetta komi fram svona seint, og ég sé engan rökstuðning fyrir því. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að það hefði átt að kalla þessa nefnd saman og skipa hana strax í sumar og breyta þessu. Það hlýtur að hafa verið hægt á sama tíma og veiðigjöldin voru rædd og þeim breytt stórlega.

Þingmaðurinn kom víða við og talaði meðal annars um veiðigjaldsnefnd. Ég vil spyrja hann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að lög hafi verið brotin ef ákvarðanir hafa verið teknar án þess að hún hafi lagt það til. Er það ekki skylda hennar og er það ekki samkvæmt lögum að hún eigi að koma með þá tillögu sem hv. þingmaður hefur talað hér um til ráðherra? Hver er lagaleg staða þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið ef veiðigjaldsnefndin hefur alls ekkert komið nálægt því að ákveða það sem til dæmis var gert hér í sumar? Hver er þá staða nefndarinnar, (Forseti hringir.) ef ekki er þörf á því að hafa hana nema þegar mönnum hentar?