143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

beiðnir um sérstakar umræður.

[10:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar og ég er viss um að margir hér inni eru einnig þeirrar skoðunar að góð stjórnmál snúist að stórum hluta um góð samskipti. Það liggur fyrir að við erum mörg hér með ólíkar skoðanir og ólíkar nálganir á hlutina en til að fá það besta út úr því verðum við að eiga góð samskipti.

Mér finnst margt benda til þess að upp sé kominn ákveðinn samskiptavandi á Alþingi sem aftrar góðum ákvarðanatökum og gerir þetta þing verra en það þyrfti að vera. Það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um í því sambandi. Ég hef gagnrýnt hæstv. forsætisráðherra fyrir að vera tregur til að koma hingað og taka þátt og vera til andsvara í sérstökum umræðum. Sérstakar umræður eru, eins og þingheimur veit, ekki óundirbúnar fyrirspurnir. Sérstakar umræður eru yfirgripsmeiri, þær fara fram með þátttöku allra flokka og þær geta ekki farið fram nema ráðherrar séu til andsvara.

Ég hef sjálfur beðið í marga mánuði með beiðni til hæstv. forsætisráðherra um að koma og taka þátt í sérstökum umræðum varðandi mál sem hann hefur sjálfur talað mikið um á öðrum vettvangi og í síðustu kosningabaráttu. Þar á meðal er afnám gjaldeyrishafta og samningar við erlenda kröfuhafa sem hæstv. forsætisráðherra talaði mjög mikið um í síðustu kosningabaráttu. Ég beið hér lengi eftir því að fá svar við því hvort hæstv. forsætisráðherra vildi vera svo vænn að koma til andsvara í sérstakri umræðu um þau mál.

Mig langar einfaldlega að spyrja hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að ég lít svo á að það sé hlutverk hæstv. forsætisráðherra, forsætisráðherra á hverjum tíma að fara á undan með góðu fordæmi þegar kemur að þessum samskiptum við þingið: Hvers vegna hefur hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) einungis svarað einni beiðni um að koma í sérstaka umræðu af þeim sex sem beint hefur verið til hans á kjörtímabilinu?