143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

beiðnir um sérstakar umræður.

[10:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við að hafa verið boðið að koma í sérstaka umræðu sem ég bað um og ekki getað komið, en það verða þá bara að vera orð gegn orði. Ég hef beðið hér spakur, í einu tilviki í marga mánuði, eftir því að vera kallaður til að koma til sérstakrar umræðu sem ég bað um en ekkert gerðist.

Svarið kom ekki við spurningu minni um hvers vegna forsætisráðherra líti ekki á það sem eina af skyldum sínum að koma til andsvara í sérstakri umræðu þegar hann er beðinn um það. Flestir aðrir ráðherrar hafa gert það, margir mjög vel, en hæstv. forsætisráðherra er verkstjóri í ríkisstjórninni og mér finnst að honum beri að fara á undan með góðu fordæmi. Hann hefur sinnt 16% þeirra beiðna sem beint hefur verið til hans.

Það er hins vegar annað sem ég ætla að spyrja um í síðara andsvari og varðar líka ákveðið viðhorf til þingsins. Farið hefur fram samráð, t.d. um síðustu jól. Gert var samkomulag, stofna átti hér samráðshóp um útboð á makrílkvóta og samráðshóp um uppbyggingu vísinda og tækni. Leggja átti sérstaka áherslu (Forseti hringir.) á að afgreiða þingmannamál, þetta var samkomulag formanna flokkanna. (Forseti hringir.) Ekkert af þessu hefur litið dagsins ljós og síðari spurningin er: Er samráð einhvers virði? (Forseti hringir.) Er hægt að treysta því hér á þinginu (Forseti hringir.) að samkomulag sé yfir höfuð virt?

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja hv. þingmann að virða tímamörk.)