143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

stjórnarfrumvörp um skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar.

[10:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra til upplýsingar hefur hann frest til mánaðamóta til að leggja mál fram í þinginu.

Spurt var: Hvað líður frumvörpum um tvö lykilloforð ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins, afnám verðtryggingar annars vegar og lyklafrumvarpið hins vegar? Hæstv. forsætisráðherra átti engin svör.

Hæstv. forsætisráðherra á engin svör um lykilloforð Framsóknarflokksins til þjóðarinnar í síðustu kosningum. Áhyggjurnar af því að verðbólgan muni éta upp ávinninginn af skuldaleiðréttingunum eru ekki mínar áhyggjur. Ég er vanur því að hæstv. forsætisráðherra fari þannig með orð mín að þau séu misskilningur og eitthvað slíkt. Áhyggjurnar af þessu eru áhyggjur Vilhjálms Birgissonar, orðrétt.

Hæstv. forsætisráðherra hefur greinilega ekki bara skrópað í þinginu heldur ekki fylgst með því sem helstu stuðningsmenn hans hafa sagt á opinberum vettvangi. Vilhjálmur Birgisson hefur lýst því að 4% verðbólga geti gert að engu ávinninginn af skuldaleiðréttingunum og þannig séu þær gagnslausar án þess að samhliða sé (Forseti hringir.) afnám verðtryggingar.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra aftur: (Forseti hringir.) Hvenær kemur frumvarpið, í næstu viku eða mánudaginn 31. mars, um afnám verðtryggingar og lyklafrumvarpið?